Öryrki segir Tryggingastofnun skaðlega heilsu skjólstæðinga sinna.
Karlmaður sem er öryrki, greindur með krónískt þunglyndi, kvíðaröskun og sjálfsvígshugsanir skrifaði stutta en sterka færslu á Facebook í kvöld þar sem hann kvartar undan Tryggingastofnun. Segir hann að stofnunin sé „beinlínis skaðleg heilsu skjólstæðinga sinna“ og segir álagi sem fylgi stöðugum kröfum og höfnunum sem hann segir að sé á grundvelli „computer says no“, vera akkurat stór hluti af þeim kvíða sem kvíðasjúklingar þjást af.
Manninum barst bréf frá Tryggingastofnun, eftir klukkan 18 í kvöld þar sem honum er tilkynnt að hann fái ekki örorkugreiðslu um næstu mánaðarmót. Í samtali við Mannlíf bendir maðurinn á að hann efist um að starfsmaður stofnunarinnar hafi unnið þetta seint á föstudagskvöldi og að tölvupósturinn hafi sennilegast verið tímastilltur.
„Tryggingastofnun er beinlínis skaðleg heilsu skjólstæðinga sinna, álagið sem fylgir stöðugum kröfum og höfnunum á grundvelli „computer says no“ er stór hluti af þeim kvíða sem kvíðasjúklingar þjást einmitt af! Mjög óhjálplegt í bataferlinu að fá að vita um miðjan mánuð að manni hafi verið hafnað um örorkugreiðslu næsta mánaðar.
Hvernig sefur maður á nóttunni eftir að senda svona bréf?“
Maðurinn, sem er rétt undir miðjum aldri og á eina dóttur, sagði í samtali við Mannlíf að geðræn vandamál séu „skjalfesta algengasta dáarorsök fólks undir miðjum aldri.“ Þetta staðfestir Landlæknir sem birtir árlega tölfræði yfir sjálfsvíg eftir kyni og aldri. Þar kemur fram að á síðustu árum hafi sjálfsvíg verið um 20% allra dauðsfalla í aldurshópnum 30-44 ára en algengustu dánarmeinin í þeim aldursflokki, auk sjálfsvíga, eru illkynja æxli, slys og óhöpp.
Ef einstaklingar glíma við sjálfsvígshugsanir er bent er á Hjálparsíma Rauða krossins 1717 og netspjall Rauða krossins 1717.is. Opið allan sólarhringinn. Einnig má hafa samband viðPíeta-samtökin sem veita ókeypis ráðgjöf í síma 552-2218, allan sólarhringinn. Netspjall Heilsuveru þar sem svarar hjúkrunarfræðingur er líka opið frá kl.8-22 alla daga. Fyrir þau sem misst hafa ástvin í sjálfsvígi má fá stuðning í sorg hjá Sorgarmiðstöð og hjá Pieta samtökunum.