Vegagerðin segir ekkert benda til þess að vegurinn hafi gefið sig þegar rútuslys varð í Rangárvallasýslu í fyrradag, eins og lögreglan hefur haldið fram.
Jón Gunnar Þórhallsson yfirlögregluþjónn á Suðurlandi sagði í viðtali við Vísi að vísbendingar væru um að vegurinn hafi gefið sig að hluta þegar rúta, sem full var af Íslendingum úr Lionsklúbbinum Dynki, 27 talsins, valt með þeim afleiðingum að öll þau sem voru í rútunni voru flutt á sjúkrahús. Enginn lést í slysinu en allir slösuðust, mismikið þó. Sjö voru fluttir með þyrlu
„En það sjást ummerki á veginum, það er nýbúið að hefla þennan veg og hann er mjúkur. Það er að vora og vegirnir geta verið mjúkir. Það voru ummerki um að vegurinn hafi að hluta til gefið sig, en þetta er allt eitthvað sem á eftir að staðfesta í samtali við bílstjóra líka,“ sagði Jón Gunnar Þórhallsson í samtali við Vísi.
Þessu er G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar ósammála. Í samtali við mbl.is segir hann sína menn ekki hafa séð nein merki um slíkt:
„Mínir menn sáu ekki þess merki að vegurinn hefði gefið sig. Rútan er þarna utarlega á mjóum vegi, það eru lélegar sjónlengdir þarna fram undan, en við sjáum þess ekki merki að vegurinn sjálfur hafi farið undan rútunni,“ segir hann.
Tók hann þó fram að enn eigi eftir að rannsaka orsök slyssins og að Vegerðing haldi áfram að fara yfir málið. Að hans mati sé of snemmt að segja til um ástæður slyssins.