Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segist ætla að beita sér til þess að fá stjórnendur Grundarheimila til þess að hætta við uppsögn 33 starfsmanna sem sinna ræstingum og störfum í þvottahúsi. Vísir ræddi við Sólveigu í kjölfar frétta af yfirvofandi uppsagna en hafði Sólveig sent félagsmönnum sínum hjá Ási og þvottahúsinu tölvupóst þar sem hún sagði þeim frá uppsögnunum. Starfsmennirnir höfðu ekki verið látnir vita og olli tölvupósturinn því nokkru uppnámi.
„Við vorum látin vita af þessu vegna þess að þarna var um að ræða hópuppsögn. Hollusta mín er náttúrulega við félagsfólk Eflingar, þegar ég fæ upplýsingar sem þessar lít ég á það sem skyldu mína að miðla þeim áfram til míns félagsfólks,“ sagði Sólveig Anna í samtali við Vísi. Að sögn Sólveigar eru starfsmennirnir sem um ræðir að meirihluta konur, margar hverjar innflytjendur.
„Þeir ráða þá ræstingarkonur í staðinn af almennum markaði þar sem launin eru lægri og réttindi miklu lakari, til þess að þeir karlar sem reki þau fyrirtæki hafi þá tækifæri til þess að græða enn meira,“ sagði Sólveig Anna.