Flugumferðarstjórar lögðu niður störf klukkan fjögur í nótt en er það þriðji verkfallsdagurinn af fjórum sem hafa verið boðaðir í þessum mánuði. Reikna má með því að verkfallið hafi áhrif á þúsundir farþega en verkfallið stendur yfir til klukkan tíu. Enginn sáttafundur hefur verið boðaður að svo stöddu og eru flugumferðarstjórar ósáttir við þau kjör sem þeim hefur verið boðið.
Fjórða vinnustöðvunin er á miðvikudaginn næsta en í tilkynningu frá Isavia segir meðal annars: „Félag íslenskra flugumferðarstjóra (FÍF) hefur boðað til verkfalla flugumferðarstjóra í flugturninum á Keflavíkurflugvelli mánudaginn 18. desember kl. 4:00-10:00 og miðvikudaginn 20. desember kl. 4:00-10:00. Ekkert flug verður þá um völlinn á þeim tíma en undanþágur verða veittar fyrir leitar- og björgunarflug, sjúkraflug og flug á vegum Landhelgisgæslunnar.”