„Niðurstöðurnar eru jákvæðar og sýna fram á að þróun og fjárfesting okkar í veiðiaðferðum og veiðibúnaði eftir lok hvalvertíðar 2022 er að skila marktækum árangri. Ég bendi þó á að þessar breytingar höfðu þegar verið innleiddar í júní 2023, áður en ráðherra tók ákvörðun sína um að stöðva hvalveiðar,“ er haft eftir Kristjáni Loftssyni, framkvæmdastjóra Hvals hf. í Morgunblaðinu í dag. Þar kemur fram að Hvalur ætli sér að leita réttar síns vegna stórfellds fjárhagslegs tjóns sem stöðvun hvalveiðanna hafði í för með sér. Forsvarsmenn Hvals hafa skilað inn skýrslu til Fiskistofu og Matvælastofnunar vegna málsins.
Þar segir meðal annars að tafarlaus dauðatíðni langreyða hafi verið 80 prósent í haust en aðeins 59 til 67 prósent árið 2022. Hvalur hf. segir aukna prósentu megi rekja til bæði fjárfestinga í veiðibúnaði og veiðiaðferðum sem búið var að framkvæma áður en hvalveiðarnar áttu að hefjast.
Mikil óánægja var meðal fólks þegar hvalveiðar hófust á ný í sumar og safnaðist saman hópur fólks til þess að mótmæla veiðunum.