Föstudagur 27. desember, 2024
4 C
Reykjavik

Össur segir Ingu valdspilltan leiðtoga: „Alltaf með túlann fullan af lýðræðishjali“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Össur Skarphéðinsson lætur Ingu Sæland fá það óþvegið í nýrri Facebook-færslu þar sem hann talar um brottrekstur Jakobs Frímanns Magnússonar og Tómasar A. Tómassonar úr Flokki fólksins.

Færsla hins fyrrverandi ráðherra Samfylkingarinnar byrjar á eftirtöldum orðum:

„Valdspilltur leiðtogi

Inga Sæland talar sig móða um skort á lýðræði – nú síðast þegar starfsstjórn var í myndun – en á sama tíma tekur hún sér alræðisvald innan Flokks fólksins, þverbrýtur reglur hans og lög og rekur þingmenn úr framboði af því þeir dansa ekki algerlega eftir hennar höfði.
Opinber brottrekstur Jakobs Frímanns (og Tomma í Búllunni) úr framboði er ekki aðeins ólýðræðislegur gjörningur hjá leiðtoga sem alltaf er með túlann fullan af lýðræðishjali heldur hreinasta valdníðsla af hennar hálfu. Það sést gjörla þegar rennt er yfir einföld og skýr lög Flokks fólksins á heimasíðu hans.

Í þeim er sagt svart á hvítu að það sé uppstillingarnefnd, skipuð af kjördæmaráði, sem gerir tillögu að framboðslista. Í kjölfarið fjalla kjördæmisráð og stjórn um tillöguna á formlegum fundum. Formaðurinn hefur ekki einu sinni frumkvæðisrétt að tilnefningum – hvað þá til að gefa út tilskipanir um að tilteknir flokksmenn megi ekki vera í efstu sætum listanna.“

Segir Össur að brottreksturinn súni „fyrirlitningu á lýðræðislegum vinnubrögðum“:

„Gjörningurinn felur því ekki aðeins í sér fyrirlitningu á þeim lýðræðislegu vinnubrögðum sem hún krefst dag hvern úr ræðustól Alþingis, heldur líka óvanalega gróft brot á lögum flokksins.“

- Auglýsing -

Össur segir ótrúlegt að þetta sé að gerast á Íslandi 2024:

„Að svona gerist á Íslandi á þriðja áratug 21. aldarinnar er með ólíkindum. Kanski á Ítalíu fyrir hundrað árum – en ekki hér og nú. Fjölmiðlar, sem eru helsta aðhaldstæki gegn valdspilltum leiðtogum, hljóta að skýra hvernig þetta samræmist lögum flokksins og hvort verjanlegt sé að flokkur undir slíkri stjórn fái tugmilljónir frá skattborgurum ár hvert í rekstrarstyrki.“

Í lokaorðum sínum dásamar Össur Jakob Frímann og spyr hvort Inga hafi ekki verið ánægð með vinsældir hans.

„Jakob Frímann er ástsæll listamaður sem á vild alls staðar enda merkilegt eintak. Enginn hefur náð meiri árangri fyrir kjarabaráttu listamanna en hann. Á sínum tíma var hann hvalreki fyrir Flokk fólksins og náði óvæntum og næsta ótrúlegum árangri með afar óhefðbundinni kosningabaráttu. Í dag er mesta fylgi Flokks fólksins einmitt í hans kjördæmi.
Gæti verið að það sé þyrnir í auga drottningarinnar að hann hefur meira fylgi en hún í sínu kjördæmi?“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -