Mikil harka virðist vera færast í kosningabaráttuna en stuðningsmenn forsetaframbjóðenda skrifa eins marga pistla og greinar og þeir komast upp með og eru þeir mismálefnalegir að mati sumra. Gísli Hvanndal Jakobsson, sem er stuðningsmaður Jóns Gnarr og að eigin sögn læknamiðill og andlegur leiðtogi, birti í gær pistill á heimasíðu Fréttatímans þar sem hann gagnrýnir Katrínu Jakobsdóttur harðlega og segir hana vera nýta andlát föður síns til að fá samúðaratkvæði en móðir Gísla lést úr krabbameini í fyrra.
„Auðvitað er þetta sorglegt, ég veit það af eigin raun og Katrín Jakobsdóttir hefur alla mína samúð. En svona leikur til að fá atkvæði er bara ekki rétt og ekki sæmandi nýjum forseta sem stökk úr ráðherrastóli til þess að verða í stærsta embætti á Íslandi vegna eigin metorðagirndar.
Það sjá allir hvað Katrín breytist í framboðinu með sitt gervibros og tugi milljóna ef ekki meira til að vekja athygli á sér. Til að kaupa auglýsingar, skoðanakannanir, ferðast í lúxus og gera hvað sem er til að fá atkvæði.
Myndir þú kjósandi góður nota látna einstaklinga úr fjölskyldu þinni til að fá atkvæði? Til að vekja athygli á þér?“ skrifar Gísli en hann hefur einnig haldið því fram að íslenskir fjölmiðlar séu að sniðganga Jón Gnarr þrátt fyrir að öll tölfræðigögn sýni hið gagnstæða.
Subbulegur pistill
Þessi pistill virðist hafa farið mjög í taugarnar á Össuri Skarphéðinssyni, fyrrverandi utanríkisráðherra Íslands, en hann svarar Gísla í athugasemdakerfi Fréttatímanns.
„Á frambjóðandi að ljúga ef hún/hann er spurð af blaðamanni um áföll í lífi sínu í viðtali sem er tekið til að skyggnast inn í sálarkirnur viðkomandi? Pistill þinn er óvanalega rætinn af manni, sem hefur atvinnu af því að hugga og lækna. Talaðu fyrir verðleikum frambjóðanda þíns í stað þess að níða skóinn af öðrum. Mér sýnist hann ekki veita af því en það er vel skiljanlegt ef andlegir ráðgjafar hans eru rígfastir í neikvæðni. Vesalings Gnarr að hafa þig í sínu liði!“
Undir þetta tekur maður að nafni Leo og segir pistilinn vera ansi ómerkilegan. „Nákvæmlega. Subbulegur. Þeir sem hann er í sambandi við fyrir handan ættu að leiðbeina honum um mannasiði,“ svarar Össur honum Leo.