Laugardagur 11. janúar, 2025
3.8 C
Reykjavik

Óþokkar á Yaris réðust á hjólreiðafólk við Þingvelli – María: „Ég gjörsamlega trylltist af hræðslu“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Ég talaði við vin minn hjá lögreglunni, en ég hef oft unnið með lögreglunni í sambandi við umferðamál hjólreiða og slíkt. En hann sagði mér að þetta væri hrein og bein líkamsárás sem við þyrftum að kæra, sem við svo gerðum. Drengurinn var kallaður í yfirheyrslu og mætti með pabba sínum sem var skráður eigandi bílsins, það fór svo að drengurinn sagðist hafa verið sofandi og viti ekki til þess að þetta hafi gerst. Nota bene, þá var hann ekki sofandi hann var að teygja úr sér fyrir utan bílinn nokkrum mínútum áður. Málið fór ekki lengra.“

Þetta segir María Ögn Guðmundsdóttir, hjólreiðarkona og sálfræðingur, í pistli sem hún birtir innan Facebook-hópsins Samgönguhjólreiðar en hún hefur einnig gefið Mannlíf góðfúslegt leyfi til að birta frásögn sína. Hún segir þar frá því þegar ungmenni á Yaris hafi ráðist á fjölskyldu sína þegar þau voru að hjóla við Þingvelli. Lögreglan gerði ekkert líkt og kemur fram hér fyrir ofan. Hér fyrir neðan má lesa pistil Maríu í heild sinni.

Ég hef hugsað mjög oft hvort ég ætti að segja frá þessarri lífsreynslu minni og okkar, en hef bara ekki verið tilbúin til þess. Alltaf þegar það kemur upp núningur í garð hjólreiðafólks þá hugsa ég til þessa dags.

Laugardagurinn 25 apríl 2020, fyrir hádegi, það var nýbúið að kynna okkur fyrir Covid, samgöngutakmarkanir í gangi og lífið bara rólegt.

Ég, Hafsteinn og Elvar vinur okkar ákveðum að hjóla til Þingvalla, nýta tækifærð því það var engin ferðamannatraffík. Við hjólum til Þingvalla, Elvar hafði bakað hjónabandssælu og tekið með sér því sjoppan var að sjálfsögðu lokuð, en það er mjög gömul hefð fyrir því að hjóla til Þingvalla og fá sér kaffi og heimabakaða hjónabandssælu (áður en nýjir rekstraraðilar tóku við).

Við hjólum svo til baka og erum komin rétt við bílastæði ofan við Almannagjá þegar ég sé þrjú ungmenni tvo stráka og eina stelpu stíga út úr hvítum Yaris og teygja úr sér, ég hugsaði oh en fallegt, vinirnir að taka rúnt snemma á þessum covid laugardagsmorgni.

- Auglýsing -

Þegar við nálgumst afleggjara að Grafning þá koma bílar fram úr okkur, fram að því hafði varla verið traffík á veginum, þarna koma þrír bílar, bíll fremst, svo Yaris og svo blár eða grænn Landcruiser. Hafsteinn hjólaði fremstur, ég fyrir aftan hann og Elvar var aðeins fyrir aftan okkur, en við öll út við hægri kant.

Það sem gerist þegar bílarnir fara fram úr okkur er að Yarisinn kemur algjörlega allur inn á akgreinina okkar og einn strákurinn (í hvítri hettupeysu) fer vel út um gluggann og slær Hafstein nokkrum sinnum í andlitið og öxlina með hvítri símahleðslusnúru eða headphones, sem sagt ræðst bara á Hafstein, sem verður til þess að hann fipast allsvakalega, nær að halda sér á hjólinu en ég klessi með framdekkið í hjólið hans (það kom stórt bruna ”sár” á afturskiptinn hjá honum eftir dekkið mitt) sem verður til þess að ég missi jafnvægið, riða út um allt og er að detta í götuna í áttina að bílnum sem er fyrir aftan Yarisinn nema næ að setja vinstri fótinn út í loft og einhvernvegin svo ótrúlega næ að halda þannig jafnvæginu og í því ati snerti ég þennan græna landcruiser með fætinum í stað þess að lenda undir honum. Elvar sem var aðeins fyrir aftan okkur náði bílnúmerinu á Yarisnum, stoppaði og skrifaði það á símann sinn áður en hann myndi gleyma því. Við Hafsteinn náðum sem sagt bæði að bjarga okkur frá því að detta í götuna í þessu rugli, en það er bara af því að við erum bæði alveg rosalega góð á hjóli, íslandsmeistarar og allur pakkinn.

Ég gjörsamlega trylltist af hræðslu þegar ég náði að átta mig á því hvað hefði gerst, strákarnir hringja strax í 112 og byðja um að lögreglan komi frá Mosó á móti Yarisnum á Mosfellsheiðinni og grípi bílinn, manneskjan í símanum tók símtalinu ekki alvarlega, gerði lítið úr og engin lögregla kom.

- Auglýsing -

Ég titraði í langan tíma eftir þetta, var marga daga að jafna mig og er mögulega bara ekkert alveg búin að jafna mig. Ég tók þessu mjög persónulega, af hverju langaði þessum krökkum að ráðast svona á okkur, af hverju er svona mörgum ókunnugum illa við mig, vilja hreyta í mig og hata mig þegar ég er hjólandi María Ögn, en ókunnugum finnst María Ögn án hjálmsins hinsvegar bara vera frábær manneskja.

Ég fletti upp bílnumerinu og sá að viðkomandi átti heima í Árbænum, við Hafsteinn fórum á rúntinn um kvöldið, létum Hafrúnu Bríeti sofna í bílnum og fórum í Árbæinn, ætluðum að skera á dekkin á bílnum, við vorum svo reið og við höfðum bara þörf fyrir að gera eitthvað í reiðinni. Bíllinn var ekki heima þegar við komum á stæðið, við horfðum á hvort annað og sögðum ókeyókey við erum að verða 40 ára, með 3 ára barn sofandi í bílnum og ætluðum að skera á dekk á bíl í Árbænum…þroskað hummm. Þegar við vorum að snúa við þá mætum við bílnum, púlsinn á mér fór upp í 200, en við keyrðum í burtu og skárum aldrei á dekkin.

Ég talaði við vin minn hjá lögreglunni, en ég hef oft unnið með lögreglunni í sambandi við umferðamál hjólreiða og slíkt. En hann sagði mér að þetta væri hrein og bein líkamsárás sem við þyrftum að kæra, sem við svo gerðum. Drengurinn var kallaður í yfirheyrslu og mætti með pabba sínum sem var skráður eigandi bílsins, það fór svo að drengurinn sagðist hafa verið sofandi og viti ekki til þess að þetta hafi gerst. Nota bene, þá var hann ekki sofandi hann var að teygja úr sér fyrir utan bílinn nokkrum mínútum áður. Málið fór ekki lengra.

Hjólreiðafólk hoppar ekki í það að skrifa endalausa leiðindapistla um alla þá neikvæðu upplifun sem fólk á reiðhjóli þarf að þola frá ókunnugum samborgurum á hverskyns stígum eða vegum. En það er aðallega af því að um leið og það kemur neikvæð umræða í fjölmiðlum sama hvers eðlis eða hvaðan hún er sprottin þá finnum hjólreiðafólk fyrir því í umhverfinu okkar, heiftin í garð hjólreiðafólks ýfist í hjarta þeirra sem finnst við vera fyrir, óvelkomin. Vorin eru til dæmis sérstaklega slæmur tími, en þá setur maður á sig skráp og tekur þetta á ennið.

Við erum samferða í þessu lífi, ef þú getur ómögulega sýnt náunganum í samfélaginu þínu umburðalyndi, vertu þá bara heima hjá þér, pantaðu allt í heimsendingu og ekki fara út fyrir garðinn þinn.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -