Sunnudagur 12. janúar, 2025
6.8 C
Reykjavik

Óttar er stoltur mömmustrákur: „Ákaflega hollt fyrir unga menn að eiga sér meðvirka móður“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Óttar Guðmundsson geðlæknir segir í bakþanka Fréttablaðsins í dag að það geti verið hollt fyrir unga menn að eiga meðvirka móður, þrátt fyrir að það geti haft slæm áhrif á samskipti við makann. Taumlaus aðdáun móður trompi það.

Ég hitti Gretti sterka Ásmundsson á dögunum á fundi í Félagi Mömmudrengja (FM). Þetta eru samtök fullorðinna karlmanna sem eru mjög háðir mæðrum sínum. Móðir Grettis, Ásdís á Bjargi, stóð alltaf þétt að baki sonar síns þrátt fyrir öll hans glæpaverk. Formaður félagsins er Oddur Sigurðsson lögmaður sem gerði garðinn frægan í upphafi átjándu aldar. Hann var drykkfelldur ofbeldismaður sem oftar en einu sinni var dæmdur frá ærunni og öllum sínum auðæfum. Sigríður Hákonardóttir móðir hans tók honum fagnandi eftir hvern ósigur og fjármagnaði ný réttarhöld. Sturla Sighvatsson frændi minn er líka í félaginu ásamt Skarphéðni Njálssyni,“ segir Óttar.

Mömmustrákar eigi þó ekki sjö dagana sæla. „Margir makar kvarta sáran undan sambandi mömmudrengja við móður sína. Þeim finnst samskiptin of náin og móðirin allt of afskiptasöm. Sumar verða afbrýðisamar og sjá ofsjónum yfir áhrifavaldi og meðvirkni móðurinnar. Þetta getur valdið hatrömmum átökum í samskiptum hjóna. Sannir mömmustrákar taka þessari gagnrýni létt enda kunna þeir vel að meta taumlausa aðdáun móður sinnar.“

Óttar kemur svo úr skápnum sem mömmustrákur sjálfur. „Ég er meðlimur í FM vegna þess að móðir mín heitin missti aldrei trúna á einkason sinn þrátt fyrir ýmsar uppákomur. Unglingaherbergið stóð alltaf til reiðu eftir misheppnaðar sambúðir eða hjónabönd. Ég held að það sé ákaflega hollt fyrir unga menn að eiga sér meðvirka móður sem dáist að þeim. Góð móðir skilur ekkert í því hvað sonurinn er óheppinn með konur. Heimurinn er fullur af freistingum og vafasömu fólki sem reynir að draga soninn á tálar. Hún veit að sonurinn vill öllum vel þótt honum séu mislagðar hendur. Mamma skilur nefnilega allt!“

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -