Lögregla var kölluð til í verslun í miðbæ Reykjavíkur í gærkvöldi vegna manns sem lét illa. Starfsfólkið var orðið óttaslegið eftir að maðurinn hafði ógnað þeim en lögregla vísaði manninum á brott. Töluvert mikið var um tilkynningar vegna fólks í annarlegu ástandi í gærkvöldi og í nótt en lögreglu bárust einnig nokkrar tilkynningar vegna grunsamlegra mannaferða.
Við reglubundið umferðareftirlit hafði lögregla afskipti af nokkrum ökumönnum. Þrír voru handteknir vegna ölvunaraksturs og einn vegna aksturs undir áhrifum fíkniefna. Um miðnætti bárust lögreglu nokkrar tilkynningar vegna flugelda sem héldu vöku fyrir fólki en lögregla minnir á að nú sé notkun flugelda ekki heimil.