Lögregla handtók kvenmann í Árbæ í gærkvöldi sem grunuð er um akstur undir áhrifum vímuefna. Við handtökuna, og nánari skoðun, kom í ljós að konan reyndist vera svipt ökuréttindum. Skömmu áður hafði lögregla haft afskipti af öðrum ökumanni sem virti ekki gangbrautarrétt gangandi vegfaranda í Vesturbænum. Ökumaðurinn sá að sér og játaði brot sitt. Á Kringlumýrarbraut var karlmaður stöðvaður og kærður fyrir of hraðan akstur og skömmu síðar var annar karlmaður handtekinn í miðbænum vegna gruns um akstur undir áhrifum vímuefna. Þá tók lögreglan hring í Kópavogi í nótt og fjarlægði skráningarmerki af fimm bifreiðum. Bifreiðarnar höfðu ýmist ekki verið færðar til skoðunar eða ótryggðar. Að öðru leyti var nóttin hjá lögreglu tiltölulega róleg.