Palestínski fáninn hefur verið málaður á gangstéttina við innganginn í íþróttahúsið í Digranesi en klukkan 15:00 hófst leikur Íslands við Ísrael í blaki karla og hefur verið boðað til skyndimótmæla við íþróttahúsið klukkan 17:30. Ísrael hefur á undanförnum mánuðum myrt yfir 30 þúsund Palestínubúa og telja margir því óhæft að landið taki þátt í íþróttaviðburðum á sama tíma.
Af öryggisástæðum ákvað Blaksamband Íslands að áhorfendum yrði ekki hleypt inn á leikinn en leikurinn hefur verið harðlega gagnrýndur af Guðbergi Eyjólfssyni, fyrrverandi fyrirliða blaklandsliðs karla, en hann líkti leiknum í pistli við að keppa við landsliðs Þýskalands á tímum nasista og hvatti blakmenn Íslands til að nota tækifærið til mótmæla.
„Ekki er hægt að fela sig á bak við að íþróttir séu ópólitískar. Rússum hefur verið vikið úr öllum alþjóðlegum keppnum vegna stríðsins í Úkraínu og Ísrael notar íþróttir til að fegra ímynd sína á alþjóðavettvangi í mjög svo pólitískum tilgangi. Ég hvet ykkur því kæru landsliðsmenn að taka höndum saman og sína í verki að þið sem manneskjur viljið ekki láta nota ykkur á þann hátt og grípið til aðgerða af einhverju tagi.
Að spila við Ísrael er eins og að spila við landslið Þýskalands nasismans í byrjun árs 1945 þegar þeir sem vildu, vissu um útrýmingabúðir nasista. Ísraelar eru með sínar útrýmingarbúðir á Gasa og það vita allir sem vilja vita.“