Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri á Norðurlandi eystra hefur verið gerð afturreka með mál á hendur blaðamönnunum fjórum sem fengur réttarstöðu grunaðara í tengslum við rannsókna á símamáli Páls Steingrímssonar skipstjóra Samherja.
Héraðsdómur Norðurlands eystra úrskurðaði í dag að lögreglunni hafi verið óheimilt að veita Aðalsteini Kjartanssyni, blaðamanni Stundarinnar, réttarstöðu grunaðs manns. Stundin greindi frá þessu. Aðalsteinn kærði þessa aðgerð lögreglunnar í síðustu viku. Talið er að þetta sé í fyrsta skipti sem látið hefur verið reyna að slíkt fyrir dómstólum að því er fram kemur í Stundinni.
Í greinargerð lögreglu var Aðalsteinn sakaður um að hafa gerst brotlegur við 228. og 229. grein almennra hegningarlaga, sem snýr að friðhelgi einkalífs með því að fjalla um gögn sem sýndi svart á hvítu aðfarir Skæruliðadeildar Samherja.
Dómurinn segir að ekki liggi fyrir að brotaþoli, Páll Steingrímsson, hafi leitað til lögreglu vegna myndbandanna sem lögreglan segir ástæðu þess að Aðalsteinn fékk stöðu sakbornings. Þá hafi Páll ekki lýst áhyggjum af afdrifum þeirra myndbanda. „Ekki er um það deilt í málinu að þær fréttir sem blaðamenn, þar á meðal sóknaraðili, unnu upp úr gögnum úr síma brotaþola hafi átt erindi við almenning og sætir sú háttsemi ekki rannsókn lögreglu. Í þeirri umfjöllun var ekkert fjallað um þessi myndbönd eða önnur persónuleg málefni brotaþola,“ segir í dómnum sem Stundin vísar til.
Gunnar Ingi Jóhannsson, lögmaður Aðalsteins, segir við Stundina að niðurstaða dómsins sé staðfesting á því sem lagt hafi verið til grundvallar þegar aðgerðir lögreglu voru kærðar. „Málatilbúnaður lögreglu á hendur blaðamönnum er reistur á sandi. Og jafnframt á þeirri afdráttarlausu réttarvernd sem blaðamenn njóta lögum samkvæmt. Sú vernd er virt. Fullyrðingar sem komið hafa fram, meðal annars frá ráðamönnum, um að eitthvað annað og meira búi að baki voru og eru tilhæfulausar. Þarna er það staðfest.“