Páll Óskar Hjálmtýsson rifjar upp sína fyrstu Gleðigöngu og kærar minningar úr henni.
Í tilefni þess að Hinseigin dagar fara fram 8. – 13. Ágúst ræddi Júróvísionstjarnan um fyrstu Gleðigönguna á Íslandi.
„Fyrsta Gleðigangan árið 2000 líður mér aldrei úr minni. Við vorum að klambra göngunni saman án þess að hafa nokkra reynslu af slíku og höfðum ekki hugmynd um hvort nokkur myndi mæta niður í bæ fyrir það fyrsta. Ég man að ég var tilbúinn til að gera þetta þótt göturnar yrðu tómar og ekki kjaftur á svæðinu,“ sagði Páll Óskar í samtali við Vísi.
Páll hefur verið brautryðjandi í baráttunni og fjalla lögin hans að mörgu leyti um fjölbreytni fólks og ástina. Það var því mikill léttir og gleði að góð mæting var á fyrstu Gleðigönguna.
„Svo lagði gangan af stað frá Hlemmi og þegar trukkurinn beygði inn á Laugaveg blasti við sjón sem ég mun aldrei gleyma. Gangstéttir fullar af fólki, sem var mætt til að sýna stuðning og samhug. Þetta var í fyrsta sinn sem ég upplifði samstöðu og stuðning frá almenningi í almannarými. Tilvera okkar var ekki lengur einhver dularfull flökkusaga í lausu lofti og stuðningurinn ekki bara eitthvað hvísl í lokuðu rými. Við vorum ekki lengur nafnlaus og í felum í dimmum skúmaskotum.“