Páll Steingrímsson skipstjóri og Eva Hauksdóttir lögmaður hans, ræddu við Frosta Logason í hlaðvarpsþættinum Á spjalli með Frosta Logasyni. Þar fóru þau yfir „símamálið“ svokallaða og ræðir Páll á opinskáan hátt um allt því tengdu.
Frosti spurði þau hvar málið stæði í núinu.
Eva: „Það er nú ekki gott að segja hvar nákvæmlega málið er statt. Það sem við vitum er að rannsókn er ekki alveg lokið en það er langur tími sem hefur liðið sem við höfum talið að við séum að fara að sjá fyrir endann á þessu en rannsókn er ekki alveg lokið.“
Páll: „Við erum kannski ekki rétta fólkið til að spyrja að þessu. Ég myndi spyrja Þórð Snæ að þessu því að okkur vantar gögn frá Google. Og forstjóri persónu- og öryggisstefnu Google, fyrrverandi, ég tek það fram, hann er eða var líka hluthafi í Kjarnanum og kona hans er hluthafi í Heimildinni. Þannig að ég held að þú ætti bara að bjóða Þórði Snæ hingað og spurja hann hvort hann geti ekki spurt þennan hluthafa að þessu.“
Frosti: „Áttu þá við að lögreglunni vantar gögn frá Google? Og hefur ekki fengið, það hefur verið einhver tregða til þess?“
Páll: „Já.“
Frosti: „Og eru það gögn sem væri sjálfsagt fyrir lögregluna að fá?“
Páll: „Mér skilst að þetta sé venjulegt ferli hjá lögreglunni, það er einhver aðili hjá rannsóknardeild lögreglunnar á Suðurnesjum, hann er bara í sambandi við Google og Facebook og þessa aðila og óskar eftir þessu. En einhverra hluta vegna þá er einhver tregða. Það veit enginn hvenær þau verða afhent. En ég held að það séu allir sammála, hvort sem það er ég eða Þórður eða Þóra eða what ever, ég held það séu allir sammála um að ljúka málinu. Ég ætla líka að benda á eitt; ég öfunda ekki lögregluna á Akureyri, þú veist, maðurinn sem situr uppi í Efstaleiti er fyrrverandi lögreglustjóri og hann hefur nú ekki beint sýnt samstarfsvilja. Þannig að það er ekki eins og þetta sé einhvað piece of cake fyrir lögregluna á Akureyri, ég finn bara til með henni, hverja þeir eru að eiga við.“
Frosti: „Einmitt það Eva, að forstjóri ríkisstofnunar eða útvarpsstjóri sé ekki tilbúinn að greiða fyrir rannsókn lögreglu, er það eðlilegt eða óeðlilegt eða hvað finnst þér um það?“
Eva: „Það eru bara ákveðin sjónarmið sem vegast þarna á, annars vegar fjölmiðlafrelsi og hans skylda til þess að standa vörð um frelsi fjölmiðla og hins vegar skylda hvers manns til að aðstoða við uppljóstrun sakamáls. Þannig að ég ætla ekkert að taka endanlega afstöðu til þess sko en það eru þessi viðhorf sem vegast á.“
Hægt er að horfa á viðtalið í heild sinni á brotkast.is