„Þeir skálda fréttir og taka bullukolla sem trúverðugar heimildir,“ segir Páll Vilhjálmsson, kennari í Fjölbrautarskóla Garðabæjar og blaðamaður, um blaðamenn í nýrri og harðyrtri bloggfærslu og telur stéttina óþarfa. „Upplýsingasamfélagið gerir blaðamenn óþarfa. Þeir hafa hvorki þekkingu né fagkunnáttu fram að færa sem eftirspurn er eftir.“
Þá vill Páll meina að blaðamenn leiðist á glæpabrautir og skáldi fréttir. „Til að gera sig gildandi leiðast sumir blaðamenn á braut glæpa og siðleysis.“
Réttast þykir Páli að afnema ríkisstyrki fjölmiðla og að leggja ætti RÚV niður, sem hann endar á að gefa viðurnefnið Glæpaleiti. „Ríkisvaldið heldur lífinu í fjölmiðlum sem annars myndu ekki þrífast. Á meðan blaðamenn eru sumpart óþarfir og að einhverju leyti lögbrjótar freistast ríkisvaldið til að halda uppi fjölmiðlum með almannafé. Nær væri að hætta öllum styrkjum og leggja niður RÚV. Blaðamennskan sinnti þá nauðsynlegum verkefnum en væri síður til óþurftar. Þaggað yrði niður í Glæpaleiti í eitt skipti fyrir öll.“
Hér að neðan má lesa færslu Páls í heild:
Blaðamönnum fækkar jafnt og þétt. Það er ástæða sameiningar tveggja stéttarfélaga þeirra, Ff og BÍ. Upplýsingasamfélagið gerir blaðamenn óþarfa. Þeir hafa hvorki þekkingu né fagkunnáttu fram að færa sem eftirspurn er eftir.
Einu sinni svöruðu blaðamenn spurningunni ,,er þetta frétt.“ Ef já, þá varð úr frétt í fjölmiðli. Ef nei, þá engin frétt. Til að eitthvað yrði að frétt þurfti heimild. Sérgrein blaðamanna var heimildarýni.
Núna ræður umræðan á samfélagsmiðlum hvort eitthvað sé frétt eða ekki. Vinna blaðamanna fer í að þefa upp færslur á Twitter eða Facebook og gera úr þeim frétt. Heimildarýni er lítil sem engin. Í stað blaðamanna gæti sjálfvirkur teljari séð um að halda lista yfir flestar deilingar og mestan lestur á tilteknum færslum. Fréttin er sjálfssprottin, þarf ekki fæðingarhjálp blaðamanna.
Til að gera sig gildandi leiðast sumir blaðamenn á braut glæpa og siðleysis. Þeir skálda fréttir og taka bullukolla sem trúverðugar heimildir. Í refsikerfinu eru fjórir blaðamenn undir rannsókn fyrir aðild að byrlun og gagnastuldi. Heilir þrír fjölmiðlar eru undir í glæparannsókninni: RÚV, Stundin og Kjarninn, RSK-miðlar. Ef þessir fjölmiðlar væru lánastofnanir færu þeir í ruslflokk – enginn vildi ótilneyddur eiga við þá viðskipti.
Ríkisvaldið heldur lífinu í fjölmiðlum sem annars myndu ekki þrífast. Á meðan blaðamen eru sumpart óþarfir og að einhverju leyti lögbrjótar freistast ríkisvaldið til að halda uppi fjölmiðlum með almannafé. Nær væri að hætta öllum styrkjum og leggja niður RÚV. Blaðamennskan sinnti þá nauðsynlegum verkefnum en væri síður til óþurftar. Þaggað yrði niður í Glæpaleiti í eitt skipti fyrir öll.