Par réðst á þrettán ára ungling í Kópavogi í gærkvöldi og barði hann í höfuðið með barefli. Parið hafði krafið drenginn um allt sem hann var með á sér en ránstilraunin fór út um þúfur. Samkvæmt dagbók lögreglu forðaði parið sér af vettvangi í Strætó og foreldri drengsins mætti fljótlega á vettvang. Lögregla og Barnavernd rannsakar málið.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði fjölda ökumanna í gær. Tveir þeirra voru stöðvaðir fyrir að nota farsíma við akstur og einn fyrir að aka yfir á rauðu ljósi. Þá voru að minnsta kosti tveir stöðvaðir grunaðir um vímuakstur og einn fyrir að aka réttindalaus.