Persónuvernd er með nokkur kvörtunarmál frá einstaklingum vegna svokallaðs PEP-lista Keldunnar.
Mannlíf sagði frá því í júní að Keldan ehf. hefði sent Ásgeir Rúnar Helgason, dósent við Háskólann í Reykjavík, tilkynningu um að hann verði brátt settur á svokallaðan PEP-lista fyrirtækisins. Um er að ræða lista yfir einstaklinga í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla. Í fyrra sagði Mannlíf einnig frá því að 14 ára barn varaþingmanns Miðflokksins hafi einnig verið sett á lista Keldunnar.
Skráningar á listann þýðir að aukið eftirlit er haft með einstaklingnum af hálfu fjármálafyrirtækja sem gæti haft í för með sér tafir á afgreiðslu eða jafnvel að viðkomandi fái ekki þjónustu í einhverjum tilfellum. Með auknu eftirliti má gera ráð fyrir að einstaklingar á listanum verði fyrir því að einstaklingsfrelsi þeirra þegar kemur að fjármálum verði að einhverju leyti skert.
PEP stendur fyrir „Politically Exposed Person“ sem gefur til kynna að aðilar listans séu viðriðnir stjórnmál, beint eða óbeint. Skráning á slíkan lista gefur ekki til kynna að aðilar á listanum séu glæpamenn eða grunaðir um slíkt en óbeinir aðilar eru skráðir vegna mögulegra áhrifa sem þeir gætu haft á þá sem skráningin kemur til út af eða stöðu sem gæti valdið því að þeir gætu verið notaðir til að greiða leið peningaþvættis eða hryðjuverka.
Mannlíf sendi fyrirspurn til Persónuverndar og spurði hvort listinn samræmdist lögum um persónuvernd. Í svari stofnunarinnar kom fram að nokkur kvörtunarmál væru á borði hennar og því gæti Persónuvernd ekki svarað spurningunni að svo stöddu.
„Persónuvernd hefur nú til meðferðar nokkur kvörtunarmál frá einstaklingum sem lúta að því sem fyrirspurn þín snýr að. Málin hafa ekki enn verið afgreidd og getur Persónuvernd því ekki svarað fyrirspurn þinni efnislega að svo stöddu.
Úrskurðir í málunum verða birtir á vefsíðu stofnunarinnar þegar þau hafa verið afgreidd.“