„Ég er allra minnsti hluthafi í heiminum held ég,“ segir Pétur Þorsteinsson, en hann var staddur á hluthafafundi Festis í síðustu viku þegar ný stjórn félagsins var kosin og ræddi við blaðamann á staðnum um atburði fundarins. Pétur segist eiga 117 eða 217 króna hlut í fyrirtækinu, hann er ekki alveg viss hvort.
„Já, þeir gerast ekki minni, hluthafarnir. Þeir milljarðamennirnir sem mættu þarna, hentu út og komu nýju fólki inn; þeir náttúrulega ráða þessu og stjórna.
Lítið er lunga í lóuþrælsunga. Þó mun enn minna mannvitið kvinna. Eins og segir í textanum. Þannig að ég er sá allra, allra minnsti bara, sem ég held að sé til. En nú er maður þarna, nú er maður hluthafi. Þessi dreifða eignaraðild sem er verið að tala um að þessi fyrirtæki eigi að sinna og allt þetta kjaftæði fram og aftur. Þetta er hundgamalt sem ég átti í þessu.“
Lagði til að félagið myndi heita Sundrung
Pétur titlar sig sem æskulýðsfulltrúa á öldrunarheimilinu Grund. Hann starfar einnig sem prestur Óháða safnaðarins.
Pétur segist hafa keypt hlutinn smáa mestmegnis að gamni á sínum tíma. „Þannig er að ég er mikill áhugamaður um hvalveiðar – guð skapaði hvali til að éta þá – og þá var þetta svona hluti af því að ég vildi sýna Kristjáni Loftssyni stuðning.“ Hann rekur það hvernig Olíufélagið hf. sem þá var og hét breytti um nöfn og eigendur með tímanum, og rann svo inn í N1, sem svo varð að Festi. Alltaf kúrði lítill hluti Péturs í félaginu á sínum stað.
Þrátt fyrir að vera sennilega minnsti hluthafi félagsins hefur Pétur látið sig deilurnar innan þess varða undanfarið, eftir að stjórnin, sem nú hefur að hluta til verið stokkað upp í, sagði Eggerti Þór Kristóferssyni upp starfi sínu sem forstjóra fyrirtækisins. Það var til að mynda Pétur sem setti það á dagskrá á hluthafafundinum að nafni félagsins yrði breytt úr Festi í Sundrung. Hann lagði það þó sjálfur til á fundinum að hans eigin tillaga yrði felld.
„Svo eru þessar kjaftasögur um Vítalíu“
Pétur segist ekki þekkja til aðdraganda uppsagnarinnar en hann hafi sannarlega orðið var við mikla óánægju með framkvæmd hennar. „Stjórnin vildi að hann myndi hverfa en það var kannski aðferðin að uppsögninni.. Hann sagði það, Guðjón, að liðinu gengi vel og þá væri hægt að fá nýjan liðsmann, leiðtoga, til þess að stjórna því áfram. Nú veit ég ekkert um það. En svo eru þessar kjaftasögur um Vítalíu.“
Líkt og þekkt er orðið sakaði Vítalía Lazareva meðal annars þáverandi stjórnarformann Festis, Þórð Má Jóhannesson, um kynferðisbrot gegn sér í byrjun árs, sem hún sagði hafa átt sér stað í sumarbústað í desember árið 2020. Annar maður sem hún bar ásakanir á í tengslum við sömu ferð er einkafjárfestir í Festi, Hreggviður Jónsson. Þórður Már Jóhannesson steig til hliðar sem stjórnarformaður Festis eftir að ásakanirnar komu fram.
Vítalía hefur sjálf lýst því að hún hafi rætt mál sitt við forstjórann, Eggert Þór Kristófersson. Hún segir hann hafa verið einn fárra sem á hana hlustuðu og lýsir því að framkoma hans hafi verið til fyrirmyndar. Þegar tilkynnt var um uppsögn Eggerts var því velt upp hvort hún gæti tengst máli Vítalíu.
„Þarna var réttlætiskennd minni brugðið“
„En það var bara þessi aðferðafræði, hvernig var farið að þessu,“ segir Pétur. Hann segist aðeins hafa kynnst Eggerti af góðu. „Bara prýðilegur drengur. Þannig að það er ekkert svoleiðis sem ég veit til þess að hafi valdið þessari uppsögn. En svo er það tilkynningin til Kauphallarinnar sem hafði misfarist – hver það var sem sagði upp og hverjum. Svo kom í ljós að það var ekki rétt að hann hefði sagt upp, heldur hafði honum verið sagt upp.“
Hann segir fundi í Festi fram að þessu hafa farið fram í mestu friðsemd, þótt hann hafi sjálfur að vísu ekki sótt þá alla. „En þarna var réttlætiskennd minni brugðið. Þess vegna kom ég með þessa tillögu. Þannig að eftir 100 ár, þá verður saga félagsins kannski skráð, ef það verða ekki einhverjir hrægammar búnir að éta það í smæstu myrkur og ystur. Þá verður þessa fundar minnst og þessarar samkomu, þannig að menn læri á þessu. Ég er smá kennimaður í þessum efnum,“ segir Pétur.