Á Sundlaugarvegi við Laugardalslaug og á gatnamótum Reykjavíkurvegs og Flatahrauns í Hafnarfirði má nú finna snotur piparkökuhús, sem bæði rúma nokkrar manneskjur í senn.
Um er að ræða strætóskýli sem Krónar hefur nú klætt í þennan skemmtilega búning til að gleðja farþega strætó sem og aðra vegfarendur sem þarna fara hjá.
Mikael nokkur vekur athygli á piparkökustrætóskýlinu við Sundlaugarveg með eftirfarandi orðum á Twitter: „Krónan að breyta strætóskýli í piparkökuhús er auglýsing úr efstu skúffu, þar sem allt skemmtilega dótið er“.
Á DV segir Brynja Guðjónsdóttir, staðgengill markaðsstjóra Krónunnar, að margir vegfarendur hafi undanfarið rekið upp stór augu við að sjá piparkökuhúsin.
„Hugmyndin kviknaði þegar jólaandinn færðist nær og okkur langaði að gleðja bæði litla og stóra vegfarendur á ferðinni.“
Brynja tileinkar auglýsingastofunni Tvist útfærsluna og segir húsin svo hafa verið unnin með Signa merkingum.
„Það er gaman að geta kallað fram bros og gleði sem er í takt við áherslu Krónunnar um að minnka jólastressið og hafa sem minnst ves í des,“ segir Brynja í samtali við DV.
Krónan að breyta strætóskýli í piparkökuhús er auglýsing úr efstu skúffu, þar allt skemmtilega dótið er. 👌 pic.twitter.com/SYXxWBGoOp
— S. Mikael Jónsson (@S_Mikael_J) December 1, 2021