Helgi Hrafn Gunnarsson, fyrrum þingmaður Pírata svarar frétt Morgunblaðsins um fjölgun flóttafólks á Íslandi, fullum hálsi.
Helgi Hrafn setti fréttahlekk í dag á Facebook-vegg sinn frá mbl.is en í fréttinni er haldið fram að einar Vestmannaeyjar hafi sótt um og muni sækja um hæli á næstu árum hér á landi. Segir Píratinn þetta rangt og svarar í nokkrum liðum.
„1. Nei, Vestmannaeyjar eru um 4.400 manns, ekki 3.000. Þannig að það eru EKKI einar Vestmannaeyjar að sækja um hæli árlega,“ skrifaði Helgi Hrafn og hélt áfram:
„2. Það FÆÐAST hinsvegar á Íslandi sirka 4.500 manns á ári, sem eru sirka einar Vestmannaeyjar. Þau börn borga ekki krónu í tekjuskatt, útsvar, tryggingagjald eða fjármagnstekjuskatt og leggja varla nokkurn skapaðan hlut til landsframleiðslu fyrr en eftir tæpa tvo áratugi í fyrsta lagi, en allan þann tíma kosta þau ómælt vinnutap af hálfu foreldra sinna. En enginn kvartar undan því að innviðir Íslands ráði ekki við allar þessar barneignir; nei, þvert á móti er áhyggjuefni hversu lítið af börnum fæðist, ef eitthvað er. Þetta undirstrikar það, að óttinn við innflytjendur snýst ekki um álag á innviði eða neitt slíkt, heldur áhyggjur af því að innflytjendur séu öðruvísi fólk en innfæddir Íslendingar. Það er það sem málið snýst um, en ekki einhverjar yfirvegaðar, föðurlegar raunsæisáhyggjur af álagi á innviði. Jafnvel ef það væru að bætast við 3.000 manns á Íslandi í gegnum hælisleitendakerfið myndi Ísland ráða við það.“
Í þriðja liðnum bendir Helgi Hrafn á þá ranghugmynd margra að 3.000 manns bætist við hér á landi þó svo margir sæki um hæli hér. „Það er líka rangt að það „bætist við“ 3.000 manns á ári í neinum skilningi. Þetta eru umsóknir um hæli, ekki sá hópur sem fær umsókn sína samþykkta, og ekki aukning umsókna heldur heildarfjöldi þeirra yfir árið. Það ætti að vera fjandakornið augljóst að hingað getur fólk ekki flutt með því einu að sækja um alþjóðlega vernd, og vísa ég þá í linnulausar fréttir af viðurstyggilegri hörku kerfisins við það að halda fólki úr landinu.“
Í fjórða liðnum talar hann um kostnaðinn við að halda fólki frá landinu: „Það er hinsvegar hárrétt að benda á vitfirrtan kostnaðinn sem fer í að halda fólki úr landi, þ.e. kostnaðinn við hælisleitendakerfið.“
En hvaða lausn hefur Helgi Hrafn á þessu öllu saman? „Í fyrsta lagi að hætta að líta á fólksfjölgun sem ógn. Í öðru lagi að búa okkur undir aukinn fjölda fólks á Íslandi næstu áratugina – því ekkert bendir til að þessu linni, þetta mun bara aukast. Í þriðja lagi reyna að nýta tækifærin sem fylgja auknu fólki betur, með því að gera fólki auðveldara að fá menntun sína og reynslu metna, auka tungumálanám verulega (bæði íslensku og ensku), tryggja gott aðgengi að menntun, endurmenntun og leiðsögn um íslenskt samfélag. Í fjórða lagi að vera bara þokkalega þakklát fyrir það að þetta fólk kjósi að flytja hingað frekar en eitthvert annað.
Og síðast en ekki síst, að læra að segja hæ.“