Lögreglu barst tilkynning um grunsamlegar mannaferðir í hverfi 108 í gær. Þegar lögregla fór á vettvang til þess að svipast um eftir manninum fannst hann hvergi. Í sama hverfi, nokkru síðar, var tilkynnt um skemmdarverk í verslun en ekki kemur fram í dagbók lögreglu hvað gekk á. Í miðbænum var brotist inn á vinnusvæði og vinnutækjum stolið. Málið er í rannsókn.
Í Hafnarfirði hafði vegfarandi samband við lögreglu vegna manns sem var í annarlegu ástandi í verslun. Þegar lögregla kom á vettvang var maðurinn á bak og burt. Í Kópavogi sinnti lögregla svipuðu útkalli en maðurinn, sem var í annarlegu ástandi, afþakkaði aðstoð lögreglu og sjúkraliðs. Þá hafði golfari samband við lögreglu vegna konu sem gekk um golfvöll og neitaði að yfirgefa völlinn. Uppátækið varð til þess að lögregla mætti á svæðið en hafði konan þá látið sig hverfa.