Föstudagur 22. nóvember, 2024
-3.7 C
Reykjavik

Play á loft í vetur meðan Icelandair er í vanda

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Flugfélagið Play er við það að tryggja sér langtímafjármögnun og stefnir á að hefja formlega starfsemi næsta vetur, samkvæmt heimildamönnum Mannlífs. Heimildamenn segja að á sama tíma sé raunstaða Icelandair verri en haldið hefur verið fram en félagið hefur meðal annars verið gagnrýnt fyrir háan rekstrarkostnað. Telja þeir að Icelandair komi til með að þurfa á ríkisaðstoð að halda og það jafnvel frekar fyrr en seinna þar sem staða félagsins sé slæm.

Samkvæmt fyrrnefndum heimildamönnum tryggði Play sér langtímafjármögnun með þeim skilyrðum að á Íslandi næðist að safna því sem nemur nærri 1,4 milljörðum króna miðað við núverandi gengi. Nú er svo komið að lítið vantar upp á þá upphæð og er unnið hörðum höndum að því innan félagsins að komast á loft næsta vetur. Það er hins vegar talvert kostnaðarsamt að reka flugfélag án tekna líkt og Play hefur gert síðan síðastliðið haust.

Félagið átti í erfiðleikum með að greiða laun þar til bjargvættur kom inn í félagið og situr nú í stjórn þess. Sá bjargvættur er Elías Skúli Skúlason, stjórnarformaður og einn eigenda flugþjónustufyrirtækisins Airport Associates, sem verið hefur í lykilhlutverki við að veita Play brúarfjármögnun. Samkvæmt heimildum Mannlífs er flugrekstrarleyfi félagsins klárt hjá Samgöngustofu en verður ekki formlega veitt félaginu fyrr en langtímafjármögnunin er tryggð. Því má segja að enn sé talsverð óvissa um framtíð Play og hvort það hefji formlega starfsemi í haust.

Áhættufælnir hluthafar

Heimildamenn Mannlífs telja að óraunhæft sé að búast við einhverri viðspyrnu í ferðaþjónustu og alþjóðlegum flugbransa fyrr en undir lok ársins. Þeir telja að það geti kostað Icelandair allt að 20 milljarða króna að halda sér á floti fram að því. Félagið eigi því ekki annan kost við þessar aðstæður en að leita til sinna hluthafa og þurfi að minnsta kosti 10 milljarða hlutfjáraukningu núna fyrir sumarið til að geta fleytt sér áfram yfir þennan hjalla. Það sé í raun algjört lágmark. Icelandair sé á sama tíma þunglamalegt í rekstri með lífeyrissjóði sem stóra hluthafa. Sjóðirnir séu á köflum áhættufælnir og ekki líklegir, að mati viðmælenda Mannlífs, til að vilja taka einir áhættuna á endurreisn flugfélagsins.

Hófsamari rekstraráætlun

- Auglýsing -

Á meðan sumir heimildamenn Mannlífs gagnrýna kostnaðargrunn Icelandair segja þeir áhugavert að velta upp kostnaðargrunni Play. Rekstarmódel félaganna séu mjög ólík. Einn af heimildamönnum Mannlífs sem þekkir vel inn á alþjóðlegan flugmarkað, segir að rekstarmódel Play sé jafnvel skynsamlegra. Þar skipti miklu máli að áhafnarkostnaður félagsins sé mun lægri heldur en hjá Icelandair en samkvæmt heimildum Mannlífs hefur félagið nú þegar gert áhafnarsamninga sem gilda út árið 2023. Play hafi einnig lagt upp með hófsamari rekstaráætlun en hið fallna lággjaldaflugfélag WOW air þar sem byrjað verður með fáa áfangastaði og fjórar flugvélar til að byrja með.

Sumir viðmælendur Mannlífs eru á því að nú sé að vissu leyti jafnvel hagstætt að hefja flugrekstur enda séu líkur á ódýrari leigusamningum flugvéla. Þá hjálpi sú staðreynd Play að félagið ætli að notast við flugvélar frá Airbus, sem eru taldar vera hagkvæmari í rekstri en Boing-vélar Icelandair.

Mikill munur á kostnaði vegna áhafna

- Auglýsing -

Fullyrt hefur verið að kostnaður vegna áhafna hins gjaldþrota WOW flugfélags hafi verið um 30% hagstæðari en hjá Icelandair og telja heimildamenn Mannlífs að kostnaðurinn sé enn lægri hjá Play. Munurinn gæti verið allt að 50% mili Icelandair og Play. Telja þeir að það sé nokkuð heftandi fyrir Icelandair hversu margir flugmenn hjá félaginu eru í hæsta launaskala og ofarlega á svokölluðum seniority-lista, eða starfsaldurslita.

Komi til þess að Icelandair þurfi að minnka flotann um helming og segja upp hundruðum flugmanna þá muni félagið sitja eftir með flugmenn sem eru með flugstjórastöðu hjá fyrirtækinu og í hæsta launaskala. Þá benda þeir á að nýting flugmannanna í flugtímum hafi verið síðri hjá Icelandair en hjá WOW. Það skrifist ekki á flugmenn heldur á félagið. Með betri nýtingu flugmanna myndi Icelandair án efa styrkja samkeppnisstöðu sína, að þeirra mati.

Hjálp eða hindrun?

Sumir heimildamenn Mannlífs telja að sterk eiginfjárstaða Icelandair geti hreinlega skemmt fyrir félaginu og sömuleiðis að félagið skuli hafa tryggt sér of mikið magn af olíu á meðan olíuverð fer hríðlækkandi.

Einn veltir fyrir sér hvort samruni Icelandair og Play gæti verið góð lausn á vanda flugrekstursins á Íslandi. Aðrir heimildamenn Mannlífs telja að sterk eiginfjárstaða Icelandair geti gefið félaginu mikilvægt forskot í viðspyrnu þegar allt opnast á nýjan leik fyrir ferðalög til og frá landinu. Þeir benda á að einn af megin samkeppnisaðilum Icelandair, hið norska Norwegian Air, sé í slæmum rekstarvanda. Þeir telja einnig að staða Íslands verði góð þegar allt fer af stað á nýjan leik, þar sem tiltölulega fá Covid-19 smit hafa greinst hérlendis og það opni bæði fyrir að tekið verði fagnandi á móti Íslendingum erlendis og að farþegar verði óhræddir við að ferðast til landsins.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -