Nóttin var nokkuð erilsöm hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt samkvæmt dagbók hennar.
Mikið var um akstur undir áhrifum áfengis og fíkniefna en alls voru átta bifreiðar stöðvaðar vegna gruns um slíkt athæfi, víðsvegar á höfuðborgarsvæðinu.
Þá var stútungsfullur einstaklingur til vandræða á veitingastað í hverfi 105. Var hann það slompaður að hann var óviðræðuhæfur og neitaði að yfirgefa veitingastaðinn. Var hann því handtekinn og vistaður þar til rennur af honum.
Óskað var eftir aðstoð lögreglu í fjölbýlishús í Breiðholti en þar var einstaklingur að reyna að komast inn í íbúð sem hann bjó ekki í. Reyndist einstaklingurinn stjörnufullur og óviðræðuhæfur og gat ekki sagt lögreglunni hvar hann byggi í raun. Fékk hann því að gista í fangaklefa þar til rennur af honum víman.