Kirkjuleg málefni geta vafist fyrir klerkum. Það varð deginum ljósara á biskupssetrinu í Skálholti í maí árið 1543. Þá rétt slapp séra Eysteinn Þórðarson með líftóruna eftir að hafa túlkað „kirkjuleg málefni“ helst til frjálslega.
Þannig var mál með vexti að Gissur Einarsson hafði haldið utan til Kaupmannahafnar árið áður. Konungur hafði gert honum boð um að koma þangað til viðræðna og var Gissur vígður Skálholtsbiskup í októberbyrjun það ár.
Áður en Gissur hélt til Kaupmannahafnar hafði hann gengið þannig frá sínum málum í Skálholti að séra Jón Héðinsson stólráðsmaður skyldi veita forsjá veraldlegum málum Skálholtskirkju og séra Eysteinn Þórðarson yrði umboðsmaður Gissurar um kirkjuleg málefni.
Einnig skyldi Eysteinn hafa tilsjón með móður Gissurar, Gunnhildi Jónsdóttur, sem þá var komin í Skálholt, og heitmey hans, Guðrúnu Gottskálksdóttur, sem hann hafði fastnað sér fyrir siglinguna til Kaupmannahafnar.
Heitkona og móðir
Óhætt er að segja að tilsjónin með konunum hafi farið úrskeiðis og heimkoma nývígðs Skálholtsbiskups með öðrum hætti en hann hafði sennilega vænst. Móðir hans lá undir ámæli um að hafa átt vingott við séra Eystein, og ekki bara hún, því Guðrún, festarkona Gissurar, hafði svo ekki var villst um vermt rekkjuvoðir klerksins og var vanfær af völdum hans.
Til að bæta gráu ofan á svart þá var séra Jón Héðinsson látinn og því meira og minna allt í upplausn.
Lesa meira hér.