Í tilkynningu frá lögreglu til fjölmiðla greinir hún frá töflum sem smyglað hefur verið til landsins sem hún telur að hafi mögulega leitt til andláts.
„Nýlega var lagt hald á MDMA (ecstasy) töflur á leið til landsins en við rannsókn á töflunum kom í ljós að þær innihéldu tvöfalt meira magn MDMA en meðaltalsstyrkur haldlagðra efna hefur verið. Þessar töflur eru kallaðar „Punisher“ og eru rauðbleikar á litinn. Lögregla hefur einnig upplýsingar um að sambærilegar bláar töflur séu seldar hérlendis en þær kunna að vera enn sterkari,“ segir í tilkynningu frá lögreglunni.
„Þá hefur lögreglan orðið vör við falsað lyf sem selt er sem Xanax . Virka efnið í Xanax er Alprazolam en hinar fölsuðu pillur innihalda í raun efnið Flualprazolam. Til rannsóknar er dauðsfall hér á landi þar sem grunur leikur á að inntaka á lyfinu hafi leitt til þess. Þær fölsuðu Xanax pillur sem lögreglan hefur lagt hald á hér á landi voru gular að lit.
Þess ber að geta að útlit bæði MDMA og Xanax taflna getur verið mismunandi.“