Quang Le er allt annað en sáttur við framkomu ASÍ í sinn garð og heldur því fram í viðtali við mbl.is að hann hafi ekki gert neitt rangt en hann hefur verið ásakaður um mansal, peningaþvætti og flutt fólk til Íslands á fölskum forsendum. Átti Quang Le á sínum tíma NQ fasteignir, Vietnam Market, Vietnam Restaurant, Vy-þrif, EA 17, Wok on ehf. og Vietnam Cuisine ehf. Fjögur þeirra hafa verið tekin til gjaldþrotaskipta.
Ekki hefur verið gefin út ákæra á hendur Quang Le varðandi þessi mál.
Í viðtalinu segir Quang Le að ASÍ hafi oft reynt að snúa starfsfólki hans gegn honum og sagt að það gæti átt kröfu í þrotabú hans ef það myndi votta fyrir um meint brot hans. Jafnframt segir hann í viðtalinu að ASÍ hafi hótað að reka fólk úr landi myndi það ekki hlýða og nafngreinir hann Adam Kára Helgason, starfsmann ASÍ, en hann kom fram í Kveiksþætti sem fjallaði um meint afbrot Quang Le.
Heldur hann því fram að Adam hafi sagt við fólk að hann ætlaði að „taka Quang Le“ niður.
Segir ASÍ hafa hótað starfsfólki
„Þau tóku starfsfólkið reglulega og ræddu einslega við það. Sumir sögðust hafa verið hræddir en fólkið sagðist ekki þurfa að borga neitt. Ég veit í sjálfu sér ekkert hvað starfsfólkið sagði við ASÍ en ég frétti að það hefði verið að spyrja um þessar greiðslur. En ASÍ-fólkið kom á öllum tímum dags, til að reyna að klekkja á mér og finna eitthvað sem væri að. En allt var í lagi, eins langt og ég vissi,“ sagði Quang Le.
Þá segir hann að Kveikur og ASÍ hafi stýrt aðgerðum lögreglu. „Ég fór beint í einangrun og vissi því ekkert um þennan þátt. En það sem ég veit er að ASÍ er búið að vera með mig á heilanum. ASÍ dró lögregluna inn í þetta, ASÍ var búið að ræða við starfsfólkið margsinnis. Aldrei var gerð nein athugasemd við neitt,“ en Quang Le segir starfsmann ASÍ hafa hótað starfsfólki hans.
„Þetta er mestmegnis einn og sami maðurinn, hann Adam, sem stóð að þessu. Hann hótaði starfsfólkinu þessu.“