Avraham Feldman, rabbíni gyðinga á Íslandi, segir að gyðingar á Íslandi óttist um öryggi sitt.
„Ég hef rætt við gyðinga á Íslandi sem segjast óttast að segja fólki frá því að þeir séu gyðingar. Sumir óttast það öryggis síns vegna, aðrir óttast það vegna þess að það gæti skaðað rekstur fyrirtækja þeirra,“ sagði Feldman við mbl.is um málið en gyðingar um allan heim hafa á undanförnum mánuðum greint frá auknu hatri í sinn garð. Rekja þeir það til átaka á Gaza en stjórnvöld í Ísrael hafa drepið yfir 25 þúsund Palestínumenn eftir árás Hamas á Ísrael 7. október í fyrra og er ekkert sem bendir til þess að þeim drápum linni á næstunni.
Feldman segist hafa rætt við gyðinga á Íslandi og hafi þeir greint honum frá því að þeir þori ekki lengur að segja fólki frá trú þeirra. Þá hafi mörgum í samfélaginu borist hatursskilaboð á netinu og 13 einstaklingum verið hótað lífláti. Einnig greindi hann frá atviki í miðborginni þar sem manni var neitað um afgreiðslu vegna þess að hann bar gyðingastjörnu á sér.