Starfsmenn veitingahúss í miðbæ Reykjavíkur óskuðu eftir aðstoð lögreglu í gærkvöldi vegna einstaklings sem svaf ölvunarsvefni inn á staðnum. Lögregla mætti á vettvang en samkvæmt dagbók lögreglu var maðurinn ofurölvi og ósjálfbjarga. Því var gripið til þeirra ráða að vista manninn í fangaklefa þar til rennur af honum víman og hann getur haldið heim á leið.
Í hverfi 104 barst lögreglu tilkynning um heitavatnslega í húsnæði fyrirtækis og síðar um kvöldið hafði lögregla afskipti af manni sem grunaður var um vörslu fíkniefna. Þá sinnti lögregla hefðbundnu umferðareftirliti og stöðvaði ökumann í Kópavogi á 135 km/klst þar sem leyfður hámarkshraði við bestu aðstæður er 80 km/klst. Auk þess voru tveir ökumenn stöðvaðir vegna gruns um akstur undir áhrifum vímuefna.