Ráðgjafarhópur umboðsmanns barna ásamt Salvöru Nordal, umboðsmanni barna, afhenti ráðherrum skýrslu barnaþings á föstudaginn sl. Í skýrslunni eru dregnar fram helstu niðurstöður þingsins sem haldið var í Hörpu í nóvember 2023. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá umboðsmanni barna.
Meðal þess sem fjallað er um í skýrslunni og börnin ræddu sérstaklega um við ráðherra eru almenningssamgöngur, aukið samráð við börn, andleg heilsa og mikilvægi fræðslu um jaðarhópa í skólum. Þá ræddu börnin og ráðherrarnir einnig um vaxandi ofbeldi meðal barna og hvernig hægt sé að bregðast við þessari þróun.
Í tilkynningunni kemur fram að síðasta barnaþing hafi verið það þriðja í röðinni en alls tóku um 140 börn þátt. Þingið er haldið annað hvert ár með það að markmiði að efla börn til þátttöku í lýðræðislegri umræðu um málefni sem snerta þau og veita sjónarmiðum þeirra farveg.
Verklag um meðferð tillagnanna innan stjórnarráðsins var unnið í framhaldi af barnaþinginu en verklaginu er ætlað að tryggja að stjórnarráðið taki tilllögu barnaþings til meðferðar. Þá á hvert ráðuneyti að skila skýrslu um hvernig unnið hafi verið með þær tillögur sem heyra undir viðkomandi ráðuneyti milli þinga. Um er að ræða mikilvægan áfanga til þess að tryggja að tillögur barna fái vandaða meðferð hjá stjórnvöldum og séu teknar alvarlega, eins og það er orðað í fréttatilkynningunni.