Fimmtudagur 26. desember, 2024
3.8 C
Reykjavik

Ragnar Kjartansson – Langstærsta myndlistarverk Íslandssögunnar í Moskvu

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Á fyrstu dögum desembermánaðar var opnuð í Moskvu ný og glæsileg menningarmiðstöð sem heitir GES-2 og er gríðarstór rússnesk listasamstæða þar sem ríflega aldargömlu orkuveri, sem áður knúði stjórnarsetrið Kreml, hefur verið umbreytt í stærðarinnar menningarmiðstöð af arkitektinum Renzo Piano.

Það var myndlistarmaðurinn Ragnar Kjartansson sem fékk það hlutverk að opna þessa nýju menningarmiðju í heimsborginni. Hann stýrir þar ásamt eiginkonu sinni Ingibjörgu Sigurjónsdóttur stórri samsýningu sem ber nafn við hæfi, Til Moskvu, til Moskvu, til Moskvu en stærsta verkið á sýningunni heitir Santa Barbara og er endurgerð á frægri sápuóperu.

Auk þess að innihalda langstærsta myndlistarverk Íslandssögunnar gefur sýningin í Moskvu gott yfirlit yfir helstu verk Ragnars. Þar að auki hafa þau Ingibjörg valið með sér marga þá listamenn sem Ragnar hefur átt í hvað mestu listrænu samtali við í gegnum tíðina. Vinnan við að setja saman slíka sýningu hefur verið löng og ströng.

„Þetta eru bara svo ólík stig sköpunar, það er þegar hugmyndin kemur og Raggi hefur gert grín að því sjálfur að hugmyndirnar sem hann fær að verkum fæðast yfirleitt fulltilbúnar. Það er nokkuð ljóst þegar hugmyndin er komin hvernig verkið á að vera,“ segir Ingibjörg.

„Svo tekur við gríðarlega flókið ferli sem tekur marga mánuði, jafnvel ár í að framkvæma þessa litlu hugmynd sem fæddist fullmótuð.“

 

- Auglýsing -

Þægilegt að vera saman í sama fagi

Ragnar segir að í sköpunarferlinu hjálpi Ingibjörg sér gjarnan að átta sig á því sjálfur hvað hann er að hugsa.

„Samtalið á milli okkar er bara eitthvað rosalega skemmtilegt. Við erum oft uppnumin yfir listaverkum,“ segir hann í samtali við Menninguna á RÚV. „Erum í uppnumdu ástandi að tala um kunst.“

Ingibjörg tekur undir og segir þægilegt að vera saman í sama fagi og með svipaða sýn á hlutina.

- Auglýsing -

„Þá getum við notað hvort annað til að ydda aðeins það sem maður er sjálfur að hugsa. Svo er ákveðinn lúxus að hafa einhvern sem er inni í öllu sem maður gerir og hefur gert, þá er þetta eins og maður sé með utanáliggjandi heiladrif sem hægt er að keyra hluti í gegnum þegar allt vinnsluminni er fullt hjá manni sjálfum,“ segir hún.

 

Full vinna að taka upp sápuóperu á listasafni

Aðalverk Ragnars í Moskvu er íburðarmikið, en á hverjum degi gengur hann frá heilum þætti af sjónvarpsþáttaröðinni með sjötíu manna teymi tæknifólks og leikara. Verkefnið mun halda áfram fram á vor og er allt verkið tekið upp á rússnesku.

„Ég er búinn að koma mér í tóma vitleysu,“ segir Ragnar um uppátækið.

Það að taka upp sápuóperu í safni sem þessu er enda full vinna. Samstarfskona Ragnars í þessu stóra verkefni er kvikmyndaleikstjórinn Ása Helga Hjörleifsdóttir. Hún segir að það hafi enginn áður gert nákvæmlega svona verk.

„Ég myndi segja að undirbúningurinn hafi verið mikilvægur og ég reyni að stýra þeim í þá átt sem búið var að ákveða, en þegar það kemur eitthvað nýtt er það líka spennandi,“ segir hún.

Sápuópera frá níunda og tíunda áratug 20. aldar

Santa Barbara er sápuópera frá níunda og tíunda áratug 20. aldar. Safnstjórinn Teresa Mavica á minningar frá þessum tíma.

„Þetta var ótrúlega kaótískur tími og ég hafði á tilfinningunni að allt væri að hrynja,“ segir hún.

„Þremur árum síðar, árið 1992, lenti Santa Barbara inni á heimilum Moskvubúa. Það kom mér sem Evrópubúa spánskt fyrir sjónir að horfa út að degi til og sjá heiminn breytast á ógnarhraða. Á kvöldin sat fólk heima og horfði á torkennilegar persónur frá Kaliforníu, vel klæddar, sem ræddu mál sem skiptu engu máli í þessu samhengi. Þetta var gjörsamlega aftengt raunveruleikanum.“

 

Hægt er að hlusta á fréttina heild sinni hér.

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -