Ragnheiður Pétursdóttir hefur haft það mjög erfitt síðustu sex árin en hún hefur verið búsett í Danmörku síðan 2004. Ragnheiður slasaðist illa í vinnunni árið 2018 en hefur síðan þurft að heyja baráttu við danska heilbrigðiskerfið.
„Seinustu sex árin hafa vægast sagt verið hryllingur. Ég slasaðist í vinnunni í maí 2018. Ég hrasaði og afleiðingar þess hafa verið ofboðslega erfiðar. Í janúar fékk ég loksins endanlega greiningu eftir nær 6 ára baráttu við heilbrigðiskerfið hér í Danmörku,“ segir Ragnheiður í viðtali við Mannlíf og útskýrir svo hvað hrjáir hana:
„Ég er með það sem heitir Cranio cervical instability og atlanto axial instability CCI/AAI. Hægra axlar liðbandið sem heldur efstu liðunum á réttum stað er eyðilagt ásamt fleiru. Greininguna fékk ég hjá virtum taugaskurðlækni á Spáni.“
Ragnheiður segir að kostnaðurinn hafi verið gríðarlega mikill en enga hjálp er að finna fyrir hana í danska heilbrigðiskerfinu. „Bara á þessu ári er kostnaður við skannanir, lækna og sjúkraþjálfara langt yfir 3 milljónum íslenskra króna. Ég fæ enga hjálp í danska heilbrigðiskerfinu. Þrátt fyrir ótal margar skannanir og skýrslur frá hátt metnum sérfræðingum í Evrópu vill kerfið hérna ekki samþykkja að ég hafi slasast svona alvarlega. Ég á það á hættu að lamast eða missa lífið vegna þess að liðirnir er lausir. Þetta hefur áhrif á allt taugakerfið og heilastofninn.“
Segir Ragnheiður að baráttan við tryggingakerfið hafi einnig verið afar erfið.
„Ég er mjög illa farin eftir ranga meðhöndlun, vöntun á meðhöndlun, vöntun á að viðurkenningu á alvarlegum skaða. Þetta hefur verið hræðilega erfið barátta við tryggingakerfi, þrátt fyrir að þetta er vinnuslys og èg var vel tryggð hef èg fengið samtals 0 krónur út úr þeim. Heilbrigðiskerfið hefur gjörsamlega brugðist mér. Ég hef staðið í ströngu við að ná því að komast á örorku sem og að fá viðeigandi hjálp hér heima sem og hjálpartæki.“
Vegna ástandins hefur hún að mestu haldið sig heima og það rúmliggjandi að mestu.
„Ég er mest megnis föst hér heima, oftast rúmliggjandi, á erfitt með að nota hendurnar, er óstöðug á fótum. Taugatruflanir, svimi, skert heilastarfsemi, sjónin er flöktandi, yfirlið, verkir, hjartsláttartruflanir og erfiðleikar með öndun. Þetta ástand er og hefur verið hreinn hryllingur að ganga í gegnum, ekki bara fyrir mig heldur líka manninn minn og son minn sem er í dag 12 ára. “
Segir Ragnheiður að ótrúlegt sé að hún haldi enn geðheilsu enda hafi hún verið beitt rosalegu óréttlæti.
„Ég á auðveldara með að tala enn að skrifa. Ég hef verið beitt þvílíku óréttlæti og oft verið mikil gaslýsing í gangi. Og það er með ólíkindum að èg hef haldið geðheilsu í þessu ömurlega og erfiða ferli.“
Í dag stendur Ragnheiður frammi fyrir erfiðri ákvörðun en möguleiki er á einhvers konar bata fyrir hana en áhættan er mikil.