Skotárásin við Miðvang í Hafnarfirði í morgun verður rannsökuð sem tilraun til manndráps. Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, hefur staðfest þetta við fréttastofu RÚV. Málið er rannsakað af miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar.
Upphaflega var fjallað um að skotmaðurinn hefði skotið á einn kyrrstæðan bíl á bílastæði við Miðvang. Hins vegar hefur komið í ljós að hann skaut á tvo bíla og var eigandi bílsins inni í öðrum þeirra. Honum er að sögn mjög brugðið en meiddist ekki.
Í öðrum bílnum eru tvö göt í framrúðunni eftir árásina. Aftari hliðarrúða er mölbrotin í hinum. Í fréttum RÚV í dag kom fram að manninum sem var inni í öðrum bílnum yrði boðin sálræn aðstoð vegna árásarinnar.
Maðurinn sem grunaður er um skotárásina var handtekinn um hádegisbil eftir að sérsveit lögreglu náði að koma honum út úr fjölbýlishúsi þar sem hann hélt til. Hann er á sjötugsaldri og verður yfirheyrður í dag.
Nágrönnum eða öðrum sem kann að líða illa vegna árásarinnar er bent á að hafa samband við hjálparsíma Rauða Krossins, 1717.