Miðvikudagur 8. janúar, 2025
-9.2 C
Reykjavik

Rapparinn með rafbyssuna – Uppnám á X-inu: „Ég hleyp í burtu og hann reynir að stinga mig“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Þann 15. febrúar árið 2010 varð uppi fótur og fit á útvarpsstöðinni X-inu 977, í húsakynnum 365 miðla í Skaftahlíð.

Þar veittist rapparinn Magnús Ómarsson, betur þekktur sem Móri, að rapparanum Erpi Eyvindarsyni með hníf. Hann var einnig vopnaður rafbyssu, með Doberman-hund sér við hlið. Erpur varðist árás Móra með skúringamoppu.

Lögreglu var umsvifalaust gert viðvart og voru fjórir lögreglubílar sendir á svæðið. Þegar laganna verði bar að garði var Móri hinsvegar á bak og burt.

 

Erpur sagðist hafa uppgötvað Móra

Formálinn að atvikinu var sá að þeir Erpur og Móri höfðu átt í hörðum deilum og orðaskaki dagana fyrir árásina. Mennina greindi á um það hvor þeirra væri meiri frumkvöðull í rappi á Íslandi. Erpur hafði til að mynda sagt í útvarpsþættinum Harmageddon á X-inu að hann hefði uppgötvað Móra á sínum tíma. Hann sagðist hafa fundið Móra í ræsinu fyrir utan Nonnabita.

Erpur sagði Móra hafa verið algjörlega óþekktan þegar hann rappaði í laginu XII vandamál á fyrstu Rottweiler-plötunni. „Það sem hann er að væla yfir er það – sem allir vita; staðreynd – að það hafði enginn heyrt í Móra rappa þegar hann rappar á fyrstu Rottweiler-plötunni sem kom út árið 2001,“ sagði Erpur í samtali við Vísi þegar deilurnar stóðu sem hæst, nokkrum dögum fyrir atvikið á 365. „Hann getur vælt endalaust og vaðið í kannabisskýi misskilnings, en ári seinna kom platan hans út,“ sagði Erpur.

- Auglýsing -
Hljómsveitin XXX Rottweiler hundar.

Sagði Erp vera að endurskrifa söguna

Stuttu síðar sagði Móri í viðtali við Fréttablaðið að hann væri búinn að rappa síðan Erpur var í bleyju.

Móri hafði hringt inn í Harmageddon þegar Erpur lét þar gamminn geisa um meinta uppgötvun sína á honum. Hann sagðist hafa ákveðið að hringja inn og sagði Erp hafa verið „eins og kúkur“.

Móri sagði við Erp í símann að hann væri að endurskrifa söguna. Því næst stakk hann upp á því að þeir Erpur myndu hittast undir fjögur augu og ræða málin. „Hann ætlaði að hringja í mig eftir þáttinn en er ekki ennþá búinn að því,“ sagði Móri í samtali við Vísi.

- Auglýsing -

Erpur bætti um betur með eftirfarandi ummælum fyrir sömu frétt á Vísi:

„Móri er gangandi sönnun þess að kannabisefni eru ekki skaðlaus.“

Móri hafði verið framarlega í baráttu fyrir lögleiðingu kannabisefna, svo þetta var fast skotið hjá Erpi.

 

Átti að vera sáttafundur

Viðtalið örlagaríka í útvarpsþættinum Harmageddon á X-inu þennan febrúardag átti að leiða þá Erp og Móra saman, svo þeir gætu sæst. Það fór þó ekki betur en eins og fyrr sagði.

Móri hafði mætt á undan Erpi í húsakynni 365. Endurbætur stóðu yfir á útvarpssviði 365 á þessum tíma og búið var að rífa allt úr úr anddyrinu. Móri beið Erps í mannlausu rýminu. Þegar Erpur mætti á svæðið lagði Móri til atlögu með hundinn sér við hlið og elti Erp um herbergið með hnífinn á lofti. Myndband náðist af atvikinu. Hundurinn virtist þó ekki í sérstökum vígaham og var frekar spakur.

Um klukkustund eftir að lögreglu bar að garði gaf Móri sig fram.

 

Sagði Móra hafa reynt að drepa sig

Í frétt sem birtist á Vísi daginn eftir atvikið sagðist Erpur ætla sér að kæra árásina. Hann fullyrti að Móri hefði reynt að drepa hann. Í samtali við Fréttablaðið sagðist Móri hinsvegar meta atvikið þannig að Erpur hafi ráðist á sig, og sagðist ætla að kæra þann síðarnefnda fyrir líkamsárás. Erpur meiddist lítillega í árásinni og hlaut einhverjar skrámur.

Þessi hundur var latasti hundur sem ég hef séð

Í samtali við Vísi í ofangreindri frétt sagði Erpur eftirfarandi um málsatvik:

„Hann ýtir í mig og fer að þenja sig. Ég gríp þá í hann og keyri á hann. Hann dettur og fer að kýla mig.

Þegar ég held honum niðri dregur hann upp hníf og byrjar og sveifla honum á fullu. Ég hleyp í burtu og hann reynir að stinga mig. Ég tek þá moppu og lem hann í hausinn.“

Hann sagði Móra því næst hafa hrökklast í burtu.

„Þessi hundur var latasti hundur sem ég hef séð. Ég þakka fyrir það,“ sagði Erpur ennfremur, um stóra ferfætlinginn sem Móri hafði sér til halds og trausts.

 

„Aldrei gerst áður á Íslandi“

Frosti Logason, fjölmiðlamaður og annar stjórnenda Harmageddon, reyndi að stöðva Móra þegar hann réðist að Erpi með hnífnum. Hugsanlega er það að einhveru leyti skjótum viðbrögðum Frosta að þakka að ekki fór verr.

„Þetta er einn æsilegasti þátturinn sem ég hef verið í,“ sagði Frosti þegar blaðamaður hafði samband við hann stuttu eftir árásina. Hann átti þá enn eftir að gefa skýrslu um málið hjá lögreglu.

Rithöfundurinn, leikskáldið og tónlistarmaðurinn Halldór Laxness Halldórsson, betur þekktur sem Dóri DNA, sagði íslenska rappheiminn hreinlega í sjokki eftir að fregnir bárust af atburðinum. Á þessum tíma hélt Dóri úti rappþættinum Haförninn á Rás 2. Hann var sjálfur rappari og þekkti vel til rapptónlistarheimsins.

„Þetta hefur aldrei gerst áður á Íslandi,“ sagði Dóri.

Hann sagði að svona árás kallaði ekki á hefnd, eins og þekkt væri til dæmis í rappsenunni í Bandaríkjunum. Hann sagði málið eiga að fara sína leið í dómskerfinu.

„Ég meina, við erum bara fullorðnir menn í vinnu og námi. Við getum ekki staðið í svona kjaftæði,“ sagði Dóri meðal annars í samtali við Vísi á sínum tíma.

 

Lögregla taldi árásina sviðsetta

Svo fór að Erpur kærði Móra fyrir tilraun til manndráps. Málið var hinsvegar fellt niður eftir stutta rannsókn. Ástæðan var sú að lögregla taldi árásina hafa verið sviðsetta.

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, réttargæslumaður Erps, var afar ósáttur við þá niðurstöðu og kærði hana til Ríkissaksóknara, sem tók undir það sjónarmið að rannsaka þyrfti málið betur.

Heilum þremur árum eftir árásina, árið 2013, var Móri ákærður fyrir hafa hótað Erpi þennan dag árið 2010 í húsakynnum 365.

„Ég kærði það til Ríkissaksóknara sem fól lögreglu að rannsaka málið betur – enda var það algjörlega órannsakað – sem leiddi síðan til þess að þessi ákæra var gefin út,“ sagði Vilhjálmur H. Vilhjálmsson við það tilefni.

Móri var ákærður fyrir að hafa hótað Erpi „með því að hafa elt Erp með hníf í hendi í anddyri 365 – háttsemin var til þess fallin að vekja hjá Erpi ótta um líf sitt, heilbrigði og velferð.“ Refsing við slíku broti gat varðað allt að tveggja ára fangelsi en vægasta refsing voru sektir. Móri var einnig ákærður fyrir vopnalagabrot, vegna rafbyssunnar sem hann bar þennan dag í Skaftahlíð.

 

Dómur kveðinn upp

Ákæran var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 18. apríl árið 2013. Móri játaði þar sök í málinu og héraðsdómarinn lauk málinu strax á staðnum með sektargerð.

Móri var dæmdur til að greiða heilar 50.000 krónur í sekt í ríkissjóð fyrir háttsemi sína þremur árum fyrr. Saksóknarinn hafði farið fram á að hann yrði sektaður um 100.000 krónur. Móri mótmælti því og saksóknari féllst á að lækka kröfuna um helming.

Rafbyssa Móra var einnig gerð upptæk.

 

„Góðir í dag? Ertu geðveikur?“

Árið 2017 var Erpur Eyvindarson gestur í Grettistaki, hlaðvarpi á Kjarnanum. Þar sagði hann að deilur hans og Móra hefðu upprunalega verið blásnar upp í fjölmiðlum.

„Fjölmiðlar vilja alltaf hafa eitthvað svona rappstríð.“

Erpur lýsti því hvernig Móri hefði komið að honum með hnífinn og rafbyssuna – og hundinn, sem Erpur sagðist reyndar ekki alveg hafa skilið hver meiningin var með.

„Hann var með einhvern Doberman-hund, sem var reyndar bara sofandi eða eitthvað. Ég veit ekki alveg hvað var að þessum hundi sko, hann var bara með allskonar greiningar.“

Þegar þáttastjórnandi spurði Erp hvort þeir Móri hefðu grafið stríðsöxina og væru „góðir í dag“, skellti Erpur upp úr. „Ég hef ekkert hitt manninn. Góðir í dag? Ertu geðveikur? Heldurðu að við séum bara…. Það er eitt að vera Árni Johnsen að vera hálfviti; það er annað að koma á eftir manni með hníf. Það er aðeins önnur saga. Þannig að nei, auðvitað erum við ekki góðir í dag.“

Erpur Eyvindarson. Skjáskot úr myndbandi lagsins „Fyrirliði“.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -