Ráðist var á starfsmann verslunar í miðbænum klukkan korter yfir sex í gær. Árásarmaðurinn lét dynja á starfsmanninn höggum og spörkum, slær svo manninn í bakið með barefli. Einnig ógnaði hann fólki sem var þar nærri. Starfsmaðurinn þekkti árásarmanninn og var hann handtekinn og vistaður í fangageymslu lögreglu.
Tilkynnt var um mann sem stolið hafði yfirhöfnum frá hóteli í Hlíðarhverfi, hann var handtekinn í mjög annarlegu ástandi og vistaður í fangageymslu.
Maður í annarlegu ástandi var handtekinn laust fyrir klukkan þrjú í nótt við veitingastað í miðbænum, þar var hann með ólæti og neitaði síðan að fara eftir fyrirmælum lögreglu. Maðurinn var færður á lögreglustöð og síðan sleppt.
Þá var annar maður í miðbænum handtekinn nokkrum mínútum síðar þar sem hann var ber að ofan og sýndi vegfarendum ofbeldistilburði. Sökum ástands var hann vistaður í fangageymslu en við vistun fundust á honum fíkniefni.
17 ára drengur var handtekinn, grunaður um eignaspjöll, brot á lögreglusamþykkt Reykjavíkur og fyrir að fara ekki eftir fyrirmælum lögreglu. Hann var færður á lögreglustöð þar sem haft var samband við forráðamann og drengnum komið heim.
Ráðist var á annan 17 ára dreng í við veitingahús í miðbænum rétt fyrir klukkan fjögur í nótt. Honum voru veittir áverkar og var hann fluttur á bráðadeild. Árásarmenn voru farnir af vettvangi.
Nokkrir voru stöðvaðir í umferðinni og reyndust vera undir áhrifum áfengis eða fíkniefna.