Óhætt er að segja að orð Heru Bjarkar Þórhallsdóttur sem höfð voru eftir henni í viðtali við ísraelska Eurovision-miðilinn Euromix í gær, hafi farið illa í landann. Hafin er undirskriftasöfnun þar sem þess er krafist að hún verði rekin úr Eurovision keppninni.
Samfélagsmiðlarnir loga í dag vegna viðtals sem ísraelski Eurovision-miðilinn Euromix tók við Heru Björk og birti í gær. Þar mærir hún framlag Ísraels í keppninni og að hún vonaði að Ísraelar séu „öryggir“ og geti notið keppninnar í ár.
Illugi Jökulsson er einn þeirra sem hafa gagnrýnt orð Heru Bjarkar:
„Þetta er svo fyrirlitlegt og lágkúrulegt að ég er eiginlega orðlaus. Það er því best að segja sem fæst. En á mínu heimili amk verður ekki horft á einn einasta þátt um Eurovision og slökkt um leið og hún birtist einhvers staðar í fréttum eða þáttum. Þetta er svo skammarlegt.“
Áður hafði hann skrifað færslu þar sem hann birti viðtalið og skrifaði einfaldlega „“I hope you are all safe“ ??????“ Margir tjáðu sig í athugasemdunum við þá færslu, meðal annars Ágúst Eva Erlendsdóttir, sem sjálf fór fyrir hönd Íslands í Eurovision á sínum tíma, sem Silvía Nótt. „Katastrofa,“ skrifaði Ágústa Eva.
Kristín Eiríksdóttir ljóðskáld gagnrýndi orð Heru einnig á Facebook:
„Örugg fyrir sveltandi börnum eða því að svelta börn? Hvað er hún að meina?“
Þá deildi Kristín einnig undirskriftarsöfnun þar sem því er krafist að Heru Björk verði vikið úr keppninni vegna viðtalsins og Bashar Murad verði sendur í stað hennar.
Eftirfarandi texti er skrifaður við söfnunina: „Hera Björk sigraði í úrslitakeppni Söngvakeppninnar þann 2. mars síðastliðinn. Í ljósi álits Heru á kynningarviðburði Eurovisionkeppninnar, sem lesa má um meðal annars á síðu Vísis á Facebook, óskum við undirrituð að Hera Björk verðu dregin úr keppni og skippt út fyrir þáttakandann sem lenti í öðru sæti.
Útrýming Ísraelsmanna á palestínsku þjóðinni er ekki í okkar nafni, og þáttaka Heru í Eurovision er ekki fyrir okkar hönd!“