Már Gunnarsson er búinn að fá sig fullsaddann af fordómum gegn samkynhneigðum og Transfólki.
Söngvarinn og afrekssundmaðurinn Már Gunnarsson birti myndband á Facebook-síðu sinni fyrir gleðigöngu Reykjavík Pride þar sem hann lætur í ljós óánægju sína vegna fordóma gegn hinsegin samfélaginu en sjálfur er hann samkynhneigður. Undanfarna daga hafa birst fréttir af því er regnbogafánar hafa verið teknir niður í skjóli nætur.
„Ég bara varð að koma þessu frá mér. Mannréttindi skipta máli og það eru mannréttindi að leyfa fólki að lifa sínu lífi eins og það er,“ skrifaði Már við myndbandsbirtinguna.
Í myndbandinu segir Már meðal annars: „Mér þykir það virkilega sorglegt að það skuli vera til þannig þenkjandi einstaklingar á Íslandi sem finnst það í lagi að fara að skera niður fánana okkar til þess að reyna að koma höggi á hinsegin samfélagið. Við búum í landi þar sem við viljum að fólk njóti jafnra tækifæra til að njóta lífsins og þar sem mannréttindi fólks eru virt.“ Bætti hann við: „Við búum ekki í einhverju íhaldsríki sem er stjórnað að trúarofstækismönnum þar sem samfélagið er með hugsunarhátt sinn einhvers staðar fastann í 13. öld.“
Már telur upp fleiri fordóma sem hinsegin fólk verður fyrir og segir svo: „Sem betur fer búum við í þannig landi þar sem lang stæsti hluti þjóðarinnar er til í að fagna fjölbreytileikanum, er til í að taka þátt í þessu með okkur og gleðjast og sýna samstöðu.“
Myndbandið má sjá hér í heild sinni: