Guðmundur Sigurður Guðmundsson sjómaður rifjar það upp er hann hætti snögglega á Bjarna Benediktssyni.
Guðmundur hefur upplifað æði margt um ævina en í viðtali Reynis Traustasonar í Sjóaranum, rifjar hann upp atvik sem varð til þess að hann var rekinn nánast á staðnum úr Spánartogaranum Bjarna Benediktssyni RE.
„Það er svolítið gömul saga á bakvið þetta,“ svaraði Guðmundur þegar Reynir spurði hvað hafi vakið fyrir honum er hann skar landganginn undan útgerðarstjóranum. „Sagan á bak við þetta er sagan um Þorgrím Mána þegar hann lendir í júníóveðrinu á Nýfundnalandsmiðum, þegar Marteinn var skipstjóri.“
Reynir: „Það er sagan á bak við það þegar Marteinn [Jónasson] verður seinna útgerðarstjóri og þér var frekar í nöp við hann?“
„Mér var í nöp við hann, já,“ svaraði Guðmundur og lýsir atvikinu. „Hann er um borð í Bjarna Ben að tala við Magga [Magnús Ingólfsson skipstjóri] eitthvað. Og Maggi er búinn að kalla í kerfið: „Sleppa að aftan“ og ég var fyrir aftan með tvo stráka með mér til aðstoðar. Þá var bátsmaður með smá völd, eða það fannst mér alla vega. Og ég segi við hann fyrst: „Flýttu þér upp stigann, tröppurnar“. Svo þurfti hann að fara niður landganginn. Og hann stoppa og horfir svona á mig. „Hvað ertu að segja maður?“,“ enda hafði þarna bátsmaður skipað útgerðarstjóranum fyrir.
„„Skipstjórinn var búinn að segja mér að sleppa að aftan“, segi ég. „Drullaður þér bara niður landganginn.“ Og þá stoppar hann og er bara grafkyrr og ég var svo illur að ég nennti ekki að leysa þessa hnúta sem héldu honum niðri, landganginum, ég bara skar á þá og tók landganginn, lyfti honum upp með karlinum á og henti öllu á bryggjuna. Þá varð hann alveg brjálaður karlinn. Hann rís þarna upp en þetta var mikil niðurlæging fyrir hann. Fullt af fólki þarna, ættingjar og vinir að kveðja. Og hann hleypur miðskips einhvern veginn í fjandanum en það var byrjað að keyra í sprenginn, og hoppar um borð og heimtar það að ég verði rekinn á stundinni. En Maggi segir þá við hann „Ef ég rek hann Guðmund núna, þá verður við að bíða í sólarhring í viðbót í höfn. Því það er enginn til að taka við“.“
Eftir ferðina hringdi Magnús skipstjóri í Guðmund og sagði honum að Markús hefði hringt í sig „trítilóður“ og krafist þess að Guðmundur yrði rekinn, ellegar yrði Magnús látinn fara. Hvatti skipstjórinn Guðmund um að biðja Markús auðmjúklega fyrirgefningar en það kom ekki til greina í huga bátsmannsins. Og þar við sat, hann var hættur á Bjarna Benediktssyni.
Hægt er að horfa á allan þáttinn hérna.