Réttarhöld yfir Magnúsi Aroni Magnússyni hófust í morgun í Héraðsdómi Reykjavíkur en hann er sakaður um að hafa orðið nágranna sínum í Barðavogi, Gylfa Bergmanni Heimissyni að bana fyrir utan heimili þeirra þann 4. júní árið 2022.
Magnúsi er gert að sök að hafa veist að Gylfa í stigagangi hússins sem þeir bjuggu í, með ofbeldi en átökin hafi svo borist út. Þar hafi Magnús ráðist á Gylfa með slíku offorsi að hann lést af sárum sínum. Magnús neitar sök í málinu en verjandi hans, segir að Magnús líti svo á að andlát Gylfa hafi borið að í átökum og að lýsingar í ákæru séu rangar. Alls gera níu bótakröfu í málinu. Það eru fjögur börn Gylfa, fjögur systkini hans og eitt foreldri. Magnús viðurkennir bótakröfu barna og foreldris en hafnar bótakröfum systkina.
Magnús kom of snemma í réttarsalinn í morgun og bað um að fá að bíða „niðri“ þar til réttarhöldin hæfust en ágangur ljósmyndara var talsverður.
Fleiri fréttir munu berast af réttarhöldunum þegar líða tekur á þau.