Það er óhætt að segja að síðastliðin nótt hafi verið þung fyrir lögreglumenn á höfuðborgarsvæðinu. Samkvæmt dagbók hennar var mikið um ölvun og óspektir á höfuðborgarsvæðinu í nótt. Sjö gista nú í fangageymslunni.
Lögreglan fékk ítrekað tilkynningar um dauðadrukkna menn í nótt. Sumir voru til vandræða. Mestu vandræðin voru líklega vegna konu í miðbænum en því er lýst svo: „Tilkynnt um konu í annarlegu ástandi í miðbænum en hafði hún kastað öli yfir dyraverði. Þegar lögregla ræddi við hana missti hún stjórn á skapi sínu og reyndi ítrekað að sparka og bíta lögreglumenn og var hún vistuð í fangageymslu lögreglu vegna ástands.“
Lögreglu barst svo tilkynningu um hópslagsmál í Hóla- og Fellahverfinu. Talað var um að sex til sjö manns hefðu verið að slást. Þegar lögregla mætti á vettvang voru þeir þó horfnir inn í nóttina og allt virtist rólegt.
Svo voru tvö innbrot tilkynnt í úthverfum. Í öðru tókst þjófinum að komast á brot með verkfæri og er málið því í rannsókn. Hitt reyndist heldur spauglegra: „Tilkynnt um yfirstandandi innbrot í hverfi 270. Húseigendur staddir erlendis en töldu sig hafa séð aðila í gegnum öryggismyndavél heimilisins. Lögregla á vettvang og kom þá í ljós að öryggismyndavél hafði dottið af festingu og var enginn inni í húsinu.“
Líkt og flestar helgar voru svo menn teknir grunaðir um ölvun við akstur.