Maður beitti exi til þess að reyna að komast inn í húsnæði í vesturborginni í nótt en honum hafði verið meinaður aðgangur. Lögreglan handtók manninn og vistaði í fangaklefa og rannsakar málið.
Annar einstaklingur var handtekinn eftir að hann sparkaði í bíl og kastaði bjórkút á meðan sá þriðji var tekinn höndum eftir að hann réðist á dyravörð í miðbæ Reykjavíkur. Neitaði hann að gefa upp nafn sitt við lögreglu.
Þá var einn handtekinn vegna gruns um líkamsárás vegna áfloga sem brutust út utandyra í úthverfi borgarinnar. Kallaði lögreglan einnig barnavernd til og foreldra ungmenna sem höfðu safnast saman í hóp og neytt áfengis.
Aukreitis sinnti lögreglan almennu eftirliti en hún fylgist sérstaklega með kosningavökum víðs vegar um höfuðborgarsvæðið. Athygli vakti í kosningasjónvarpi Ríkisútvarpsins í gærkvöldi þegar þrír lögreglumenn birtust allt í einu í kosningavöku Pírata en reyndist aðeins um almennt eftirlit að ræða.