Miðvikudagur 25. desember, 2024
-1.2 C
Reykjavik

Rifjar upp gleðigöngu liðinna ára: „Þegar ég sé aukna transfóbíu á Íslandi er ástæða til að mæta“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -
Anna Kristjánsdóttir talar um gleðigöngur fyrri ára og aukna transfóbíu í nýjustu dagbókarfærslu sinni á Facebook.

Anna, sem hefur verið leiðandi í baráttu Transfólks á Íslandi um árabil, viðurkennir að hún sakni þess ekki að vera á Íslandi í gleðigöngu dagsins því henni langi ekkert sérstaklega til Íslands. Segir hún að þegar hún sjái aukna fordóma gegn transfólki á landinu, sé ástæða til að mæta og sýna samstöðu, „þá ekki síst þegar vart verður við klofningshópa sem sjá transfólki allt til ama.“

Þá viðurkennir hún einnig að hafa verið nokkuð löt við að mæta í gleðigönguna í gegnum árin þó hún styðji hana af heilum hug. Anna rifjar upp gleðigöngur fyrri ára og þegar hún stofnaði Transgender Europa og Trans-Ísland ásamt fjöldi annarra baráttumanna. Að lokum sendir hún baráttukveðju til hinsegin fólks á Íslandi og vonar hún að gleðigangan muni ganga vel.

Færsluna má sjá í heild sinni hér fyrir neðan:

Dagur 1460 – Hinsegin dagar og gleðigangan.

Ég verð að játa að ég sakna þess að vera ekki á Íslandi í gleðigöngu dagsins í dag. Mig langar ekkert sérstaklega til Íslands, en þegar ég sé aukna transfóbíu á Íslandi er ástæða til að mæta og sýna samstöðu gegn fóbíunni, þá ekki síst þegar vart verður við klofningshópa sem sjá transfólki allt til ama. Að auki skilst mér að það verði ekki mjög kalt á Íslandi í dag þannig að flíspeysan og vaðmálspilsið hefðu nægt í gleðigöngu dagsins.
Ég viðurkenni alveg að ég hefi verið fremur löt við að mæta í gleðigönguna í gegnum árin þótt ég styðji hana heilshugar, en fyrstu árin sem hún var gengin, var aðaláherslan á að bæta réttindi samkynhneigðra, en við hin fengum að fylgja með. Ég man ekki hvaða ár það var sem Samtökin 78 breyttu áherslum sínum og gerðust LGBTQIA+ samtök þótt við hefðum ávallt verið velkomin í gönguna, sem nota bene, er haldin á vegum Hinsegin daga, en ég var hvað virkust í hinsegin starfi á þeim tíma, auk þess sem ég tók þátt í að stofna Transgender Europe og Trans-Ísland ásamt fjölda annarra baráttumanna af öllum kynjum, en sat í fyrstu stjórn Transgender Europe frá 2005-2008.
Oft var ég á vaktinni á sama tíma og gleðigangan fór fram en úti á sjó í einhverjum tilfellum, t.d. 2015 þegar ég var að leysa af á Herjólfi og fleiri manns minntu mig á að ég væri á risastóru plakati á Skólavörðustíg. Sjá minningu í gær.
Það var mér sömuleiðis minnisstætt er ég og Anna Margrét gengum í fyrsta sinn með transfánann í gleðigöngunni, var það ekki 2013? Það eru komin tíu ár síðan. Samt finnst mér eins og að það hefði verið í gær. Sjá myndir. Takk þið sem tókuð myndirnar. Nú er farið að mála fánann á götu í Reykjavík.
Þar sem ég bý hér í Paradís þar sem flestum er hjartanlega sama um það hvort einhver er trans eða eitthvað annað, verð ég að láta mér nægja að senda baráttukveðjur til alls hinsegin fólks á Íslandi og megi gleðigangan verða sem best heppnuð sem og önnur þau atriði Pridevikunnar sem ég hefi líka misst af.
Á morgun sunnudag, verður mjög stuttur en ánægjulegur pistill enda sunnudagur.

Gleðigangan í Reykjavík hefst klukkan 14 en gengið verður frá Hallgrímskirku að Hljómskálagarðinum þar sem skemmtiatriði mun gleðja mannskapinn. Víða um land verða gengnar gleðigöngur á sama tíma.

Mannlíf sendir baráttukveðjur til hinsegin samfélagsins í tilefni dagsins.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -