Mennta- og barnamálaráðuneytið og Miðstöð menntunar og skólaþjónustu kynna til leiks vefinn Saman gegn fordómum sem opnaði formlega fyrr í dag en greint er frá þessu í tilkynningu frá yfirvöldum.
„Hlutverk vefsins er að fræða og vekja athygli á fordómum og hatursorðræðu í samfélaginu. Vefurinn býður upp á fjölbreytta fræðslu og verkfæri sem ætlað er að stuðla að aukinni vitund og skilningi meðal almennings,“ segir í tilkynningunni.
Á vefnum er að finna ítarlegt fræðsluefni um mismunandi tegundir fordóma og hatursorðræðu. Þar eru einnig leiðbeiningar um hvernig einstaklingar geta brugðist við þegar þeir verða vitni að eða verða fyrir slíkri hegðun.
„Hatursorðræða er særandi og veldur sundrungu og skautun í samfélaginu. Saman gegn fordómum fellur að áherslu ríkisstjórnarinnar á jafna stöðu og jöfn réttindi allra, standa með jaðarsettum hópum og uppræta rótgróna fordóma í samfélaginu. Hatursorðræða er mein sem leggjast þarf á eitt til að uppræta og saman getum við það,“ segir Ásthildur Lóa Þórsdóttir, mennta- og barnamálaráðherra í tilefni þess að vefurinn var opnaður.