Ástráður Haraldsson, settur sáttasemjari í deilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins, segir að viðræður dagsins hafi engu skilað. Samningsnefndir funduðu í allan dag og segist Ástráður vonsvikinn með afrakstur dagsins. Að öllu óbreyttu má því búast við að verkföll hefjist annað kvöld.
RÚV greinir frá þessu. „Ég verð því miður að segja að viðræður dagsins hafa ekki skilað okkur mikið fram á við,“ er haft eftir Ástráði. Annar fundur á að fara fram á morgun. Ástráður segist vilja halda viðræðum áfram þrátt fyrir að deilurnar séu komnar í hnút.
„Þannig að ef það myndast einhver glufa, eða einhver tækifæri, þá auðvitað reynum við að nota þau. Ég ætla að vona að ef þetta fer svona eins og við óttumst, þá gerist það ekki með þannig hurðaskellum að það sé ekki til leið til baka. En ég verð að segja ykkur hreint út eins og er að dagurinn í dag skilaði mjög litlu – og eiginlega engu. Og á þeim fresti sem við erum núna þá er bara morgundagurinn eftir.“