Mín Líðan heldur áfram að ryðja brautina.
Sálfræðistofan Mín Líðan er eitt þeirra 12 nýsköpunarfyrirtækja sem hafa hlotið styrk úr Fléttunni en hún snýr að nýsköpun í heilbrigðisþjónustu. Markmið hennar er að innleiða og nýta áhugaverðar lausnir til að bæta þjónustu við sjúklinga, stytta biðlista og auka hagkvæmni og skilvirkni kerfisins. Styrkurinn er háður því að fyrirtækin 12 vinni náið með stofnunum eða fyrirtækjum í heilbrigðisþjónustu sem skuldbinda sig til að innleiða nýsköpun frá fyrirtækjunum.
Mín líðan er eitt þeirra fyrirtækja sem fékk styrk en fyrirtækið hefur verið brautryðjandi í sálfræðiþjónustu á netinu frá stofnun. Tanja Dögg Björnsdóttir, stofnandi og framkvæmdastjóri Mín Líðan, sagði í samtali við Mannlíf að styrkurinn muni nýtast vel í áframhaldandi vinnu þeirra til að bæta sálfræðiþjónustu á Íslandi.
„Styrkurinn er gríðarleg viðurkenning fyrir Mín líðan og þær lausnir sem við höfum þróað. Markmið Mín líðan er og verður alltaf að auka aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu auk þess að aðstoða opinbera kerfið við að vinna á biðlistum sem virðast bara lengjast. Enginn biðtími er í 10 tíma staðlaðar netmeðferðir Mín líðan og mun þjónustan því gjörbylta aðgengi að sálfræðiþjónustu á heilsugæslunni fyrir skjólstæðinga sem eru með vægan til miðlungs sálrænan vanda.“
„Við erum einstaklega þakklát fyrir traustið sem Heilsugæslan sýnir okkur með samstarfinu og þakklát Áslaugu Örnu nýsköpunarráðherra fyrir Fléttuna sem veitir íslenskum heilbrigðistæknifyrirtækjum áður óþekktan aðgang að innleiðingu inn í heilbrigðiskerfið með það að markmiði að bæta þjónustu við skjólstæðinga, nýta stafrænar lausnir og besta það fjármagn sem heilbrigðiskerfi okkar allra fær til aflögu,“ sagði Tanja að lokum.
Hér fyrir neðan má sjá lista fyrirtækja sem fengu styrk: