Föstudagur 25. október, 2024
1.5 C
Reykjavik

Róbert rjúpnaskytta var hársbreidd frá dauðanum: „Við máttum ekki hreyfa hann“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Róbert Hlífar Ingólfsson lenti í alvarlegu slysi þegar hann fór með vini sínum á rjúpnaveiðar föstudaginn 26. nóvember í landi Munaðarness í Árneshreppi.

Leið þeirra Róberts og Guðna lá frá Munaðarnesi og í átt að Norðurfirði. Einhver vegalengd var á milli þeirra, en þó ekki ýkja löng. Báðir voru þeir með talstöðvar en þær áttu sannarlega eftir að reynast þeim mikilvægar.

Um hádegisbil missti Róbert fæturna undan sér og rann af stað niður mikinn bratta í Munaðarneshlíð. Hann rann tugi metra, allt að því 150 talsins, niður fjallið og lenti að lokum á steini. Hann slasaðist töluvert og hefur þurft að gangast undir aðgerð, en er nú á batavegi og þykir mikil mildi að ekki fór verr.

Fyrst um sinn leit þetta ansi illa út, þegar Róbert fann ekki fyrir fótunum þar sem hann lá á jörðinni og beið eftir að vera sóttur af þyrlu Landhelgisgæslunnar.

Mannlíf ræddi við föður Róberts, Guðlaug Ingólf Benediksson.

Rann stjórnlaust niður hlíðina

„Þetta leit ekki vel út fyrst, þegar enginn vissi neitt,“ segir Ingólfur.

- Auglýsing -

„Þeir fara þarna á rjúpu, félagarnir, og fara upp á fjallið. Í átt að Norðurfirðinum. Þeir eru ekki saman en samt ekki langt á milli þeirra. Þeir eru báðir með talstöð, þar sem þeir tala sín á milli. Svo eru þeir komnir þangað sem þeir sjá niður í Norðurfjörðinn og eitthvað að fara að lækka sig. Þeir eru að labba yfir harðfennisskafl, þar sem bara fljúga undan honum fæturnir. Þeir eru báðir á mannbroddum samt.

Þeir eru með byssur náttúrulega í höndunum, en hann[Róbert] er samt ekki með byssuna hlaðna. Hann var búinn að taka skotin úr skömmu áður.“

Ingólfur segir Róbert fyrst hafa runnið nokkra vegalengd á maganum.

- Auglýsing -

„Hann sér þá einhverja steina fyrir framan sig og nær einhvern veginn að beina sér frá þeim. Eða yfir þá, segir hann mér. Þá fer hann kollhnís á harðfenninu og þá eykst ferðin ennþá meira. Þá rennur hann bara stjórnlaust og lendir svo á stórum steini.

Hann er með bakpoka og lendir sennilega með bakpokann á undan sér á steininum. Það dregur sjálfsagt úr mesta högginu. Svo fer hann yfir steininn, segir hann, og rennur þarna ennþá lengra niður og stoppar svo þar sem er autt barð – með höfuðið á undan sér niður hallann.“

Reykjaneshyrna og Norðurfjörður. Mynd: Vestfjarðastofa.

Var með meðvitund allan tímann

Róbert náði þarna að taka af sér bakpokann, þar sem talstöðin hans var. Hann gat því kallað á Guðna, vin sinn. Guðni hringdi þá strax í Neyðarlínuna og Ingólf, föður Róberts.

„Guðni fer svo að leita að honum og fer aðeins í vitlausa átt fyrst, en finnur hann svo. Hann byrjar á því að breiða yfir hann föt; fer úr sínum fötum og breiðir þau yfir hann. En á meðan Guðni var að leita að honum held ég að Róbert hafi líka hringt sjálfur í Neyðarlínuna.

Hann var með fulla meðvitund allan tímann. Því eins og hann segir, þá fyrst eftir að hann datt og rann af stað þá náði hann að beina sér frá steinunum sem höfuðið á honum stefndi beint á.“

 

Fann ekki fyrir fótunum

Eins og áður sagði lenti Róbert að lokum með bakið á steininn og því voru aðaláverkarnir í bakinu.

„En þegar hann fer fyrst yfir steinana þarna ofar, þá lendir hann með höfuðið á hjarninu, sem sker höfuðið á honum. En það er ekki höfuðhögg beint á steininum.“

Róbert meiddist illa í baki. Einn hryggjaliður brotnaði, hann hlaut skurði á höfði og svo er hann með meiðsli í brjóstkassa, þar sem rifbein hafa sennilega brákast. Hann er nú nýbúinn í aðgerð þar sem hryggur hans var spengdur.

Ingólfur segir að þetta hafi ekki litið vel út fyrst, á slysstað.

„Hann fann ekkert fyrir fótunum þegar við komum.“ Hann sé þó, sem betur fer, með fulla tilfinningu núna. „Hann náttúrulega bara kólnaði upp. Hann lá þarna í snjónum og það var ekkert hægt að hreyfa hann neitt – við máttum ekki hreyfa hann. Svo hann lá þarna í snjónum og við komum að sennilega svona hálftíma, þremur korterum eftir að Guðni hringdi í mig.“

Myndin tengist fréttinni ekki beint. Mynd/skjáskot RÚV.

Beið í tæpa þrjá klukkutíma eftir þyrlunni

Vitað er með nokkurri vissu klukkan hvað slysið varð. Sími Róberts hafði nefnilega hringt í brjóstvasa hans og hann var við það að teygja sig í símann þegar fæturnir flugu undan honum. Öll tímalínan er því nokkuð skýr.

„Hann dettur nokkrar mínútur yfir 12 og svo þegar þyrlan fer frá okkur í loftið með hann, þá er klukkan 14:43 held ég. Manni finnst þetta auðvitað langur tími. Svo gat þyrlan náttúrulega ekkert lent, þetta var of bratt. Það þurfti að hífa hann upp í börunum.“

Ingólfur kveðst ekki alveg viss hversu langt Róbert féll, en hann segist þó hafa giskað á að þetta hafi verið um það bil 150 metrar.

„Ég myndi halda það. En svo er það hundaheppni að hann skyldi ekki fara yfir þennan grasbala sem hann stoppaði á, því það var annar skafl fyrir neðan sem hann hefði þá haldið áfram á og fram af hömrunum.“

 

Var hræddur við að vera búinn að missa máttinn

Ingólfur segir að Róberti líði ögn betur og að dagarnir verði betri. Dagurinn eftir aðgerðina hafi verið mjög slæmur en að það sé mun betra að sjá hann núna.

„Hann var hræddur, þegar hann fann ekki fyrir fótunum. Hræddur við að vera búinn að missa máttinn. En kuldinn hefur eitthvað deyft hann niður. Svo er það áfall og sjokk.

En þegar hann stoppaði þá hefur hann greinilega dofnað svona skarpt upp að hann gat tekið af sér bakpokann og snúið sér þannig að höfuðið fór upp á við. Hann hefur bara dofnað strax og ekki fundið eins til. Því þegar við komum til hans þá hefði hann aldrei snúið sér eitt eða neitt. Hann var með það mikla verki.“

„En þetta fór bara allt saman mikið betur en það leit út og maður hélt,“ segir Ingólfur.

 

Að lokum vilja þau hjónin, Ingólfur og Jóhanna, foreldrar Róberts, skila kæru þakklæti til allra sem komu að umönnun sonar þeirra. Þau nefna sérstaklega viðbragðsaðila á slysstað, þá sem hafa annast hann og frænkur Róberts, þær Ellen og Rakel, sem fóru beint á spítalann í Reykjavík þegar Róbert var kominn þangað og voru honum afar mikilvægur stuðningur.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -