Fimmtudagur 9. janúar, 2025
-12.2 C
Reykjavik

Rósa Ingólfs árið 1982: „Rauðsokkur og kommúnistar eru samansafn af ljótustu konum Íslands“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Rósa Ingólfsdóttir var afar hæfileikarík, fjölhæf, litrík og skemmtileg manneskja sem kom víða við.

Án alls vafa frægasta sjónvarpsþula sem Ísland hefur af sér alið, af mörgum eftirminnilegum sjónvarpsþulum sem fyrir margt löngu hurfu af skjánum; sumum til gleði og öðrum ekki.

Rósa var alla tíð ófeimin við að tjá skoðanir sínar á opinberum vettvangi; sumar þeirra vöktu athygli um allt land.

Hún olli uppnámi árið 1982 þeg­ar hún lét eftir sér hafa opinberlega að rauðsokk­ur og komm­ún­ist­ar væru ljót­ustu kon­ur lands­ins:

„Mér finnast þessar rauðsokkur og þær sem hafa fylkt sér undir merki kommúnismans, vera einfaldlega samansafn af ljótustu konum Íslands.

- Auglýsing -

Ef litið er á myndir af þessum konum, þá er ekki annað hægt en að taka eftir þessu. Þær eru beinlínis ljótar, þær ljótustu sem fyrirfinnast hér á landi; eru eitthvað svo ókvenlegar, Ijótar og luralegar.“

Þessi frægu orð sagði Rósa í helgarviðtali við DV árið 1982.

 

- Auglýsing -

Hún vakti reiði margra með því að lýsa því yfir að konur sem þá börðust fyrir jafnrétti væru beinlínis ófríðar, ljótar:

„Þær reyna ekkert að laga sig skemmtilega til og eru aldrei fínt uppfærðar. Mér finnast þetta bara vera konur sem eru að svíkja eðli sitt. Ég vil hafa konur kvenlegar. Þær eiga að vera konur í útliti. Þær eiga ekki að reyna að vera karlar,“ sagði Rósa í viðtali sem hinn þrautreyndi fjölmiðlamaður og ljóðskáld, Sigmundur Ernir Rúnarsson, þáverandi blaðamaður.

Misserin á undan hafði Rósa verið í stóru hlutverki í djörfum auglýsingum innheimtudeildar Ríkisútvarpsins, sem tefldi fram kynþokkafullum konum og geimverum, í því skyni að innheimta áskriftargjöldin að ríkisfjölmiðlinum; auglýsingarnar vöktu mikla athygli og sums staðar gremju:

„Ég er ofsalega sammála orðum Hannesar Hólmsteins þegar hann sagði að konurnar hugsuðu í hring en karlmaðurinn í línu. Og það er munur, það er stór munur á konu og karli. Konur eru allt öðruvísi en karlar. Þær eru miklu meiri tilfinningaverur og eru meira inni í sjálfum sér. Karlarnir eru ákveðnari og öruggari. Konurnar eru flækjukenndari. Ég myndi segja að karlarnir væru rökréttari og rökfastari en konurnar. Konurnar eru bara nokkurs konar víravirki.“

Hún sagði að með þessum orðum ekki vera að segja að konur séu illa gefnar:

„Konur eru mjög vel gefnar, alveg til jafns við karlmenn. En bara tilfinningarnar. Þær eru svo mikið öðruvísi. Þess vegna finnst mér að konur eigi ekki að setja sér stjórnmálalegt markmið. Stjórnmálalegur frami er ekkert takmark fyrir konur og þetta er persónuleg skoðun mín. Stjórnmál eru ekki það rétta fyrir konur,“ sagði Rósa.

Hún vildi að konan sé heima og hugsi um heimilið og barn eða börn:

“Karlinn vinnur úti og kemur heim eftir mikinn vinnudag og auðvitað sameinast þau þá. Hjónabandið er náttúrlega ekkert annað en sameining. En ég er á móti því, sem mikið hefur verið rætt um að undanförnu, að karlinn eigi að gera þetta og hitt þegar hann kemur heim úr vinnunni. Hann geti alveg séð um matinn, þurrkað af og haldið húsinu við og svo framvegis. Ég er mikið á móti þessu hugarfari. Mér finnst eins og með þessu sé verið að gera karlmanninn að einhverjum þræl,“ sagði Rósa Ingólfsdóttir fyrir 39 árum síðan.

Hún lét eftir sér hafa að „ég varð ekki fyrir aðkasti vegna skoðana minna. En ég skynjaði óttablandna virðingu og var beitt þöggun.“

Rósa sagðist vera stolt af innheimtuauglýsingunum sem hún samdi frá grunni og lék hlutverk í þar sem kynþokki hennar var rækilega undirstrikaður; meðal þess sem hún gerði var að setja tæknimenn í gervi geimvera:

„Þetta var gagnrýnt og þótti djarft. Ég sá hluta af þessum auglýsingum í upprifjun Sjónvarpsins í tilefni af 50 ára afmæli þess og ég er afar stolt af þeim.“

 

Rósa bakkaði ekkert með það: Sagðist alltaf standa við orð sín; líka þau að konur í hópi rauðsokka og kommúnista hafi verið ljótar:

„Þar var ég þó ekki að tala um manneskjurnar heldur hópana sem slíka. Allar manneskjur eru fallegar, hver á sinn hátt. Þessir hópar klæða sig luralega og líta því illa út. Það sést aldrei rauðsokka í bleiku sem er liturinn sem undirstrikar þokka kvenna,“ sagði Rósa; og stendur líka við þá skoðun sína að karlar eigi að stjórna þjóðfélaginu:

„Ég er gamaldags og hugsa mikið og les mikið. Það er niðurstaða mín og sannfæring að konur eigi að standa við bakið á mönnum sínum, en ekki trana sér fram í stjórnmálum eða annars staðar.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -