Í baksýnisspeglinum í dag rifjum við upp gríðarlegan rottugang í Hlíðunum árið 1990. DV tók viðtal við íbúa þann 11.júlí árið 1990 en sá var virkilega þreyttur á ástandinu. „Ég lá í sólbaði á grasflötinni við húsið í síðustu viku og vissi ekki fyrr en rotta kom labbandi að mér í rólegheitunum. Mér brá illa en kvikindið virtist ekki hrætt fyrir fimmaura,“ sagði Guðlaugur Lárusson, íbúi við Miklubraut 13. „Það er orðið mikið um rottur hér í kring og í húsinu er þetta orðið svo slæmt að konurnar þora ekki í þvottahúsið og því síður að láta börnin sofa úti í vögnum. Þessi fénaður er viðbjóðslegur og á ekki að sjást í nokkurri borg þar sem yfirvöld hafa snefil af sómatilfinningu,“ sagði Guðlaugur sem var afar heitt í hamsi.
Þegar DV ræddi við Guðlaug var hann að enda við að hirða eina dauða rottu upp í þvottahúsinu. Þar hafði verið eitrað fyrir rottunum og ein þeirra ruðst upp í ristina í kjölfarið. Guðlaugi var ekki skemmt. Aðspurður hvort ekki væri eitrað reglulega á svæðinu sagðist hann ekki halda það.
„Það virðist ekki vera. Ég hringdi í borgina og í fyrstu var mér bent á að laga einhverja rennu við húsið. Ég lét mér ekki segjast og um síðir kom maður loksins til að eitra. Það var þó eins og hann hefði varla tíma til að standa í þessu.“ Hann sagði rottuganginn hafa aukist mikið í Hlíðunum. Hann sagðist hafa orðið var við rottu af og til þegar hann var búsettur á Snorrabraut í fimmtán ár, það hafi ekki verið neitt í líkingu við ósköpin í dag og vandaði hann borgaryfirvöldum ekki kveðjurnar.
„Það er greinilegt að peningar eru lagðir í aðrar framkvæmdir en að uppræta þennan viðbjóðslega fénað. Rotturnar koma úr holræsunum og hitaveitustokkunum og þetta eru engin smákvikindi. Þessir háu herrar hjá borginni virðast flytja í nýju hverfin og skilja okkur eftir í þessum viðbjóði. Það líður að því að kvikindin fara að ganga yfir mann hérna. Íbúarnir eru langþreyttir á þessu. Í smáplássum úti á landi eru farnar herferðir gegn rottum en hér í höfuðborginni virðast rotturnar sums staðar komast upp með að fara í herferð gegn íbúum,“ sagði hann að lokum en síðan þá hafa rotturnar látið sjá sig víða um borgina.