Aðsendur pistill sem byggði að öllu leyti á misskilningi birtist í Morgunblaðinu í gær. Þar ruglaðist pistlahöfundurinn á Gísla Marteini Baldurssyni og konu.
Einar S. Hálfdánarson hæstaréttarlögmaður og faðir Diljár Mistar, þingkonu Sjálfstæðisflokksins skrifaði heila grein í Morgunblaðið um þá hræsni Gísla Marteins Baldurssonar, að neita að kynna Eurovision í ár en hafa kynnt sömu keppni í Aserbaísjan árið 2012. Eini gallinn á greininni er sá að Gísli Marteinn lýsti ekki keppninni árið 2012.
Gísli Marteinn vakti athygli á þessum vandræðalega pistli á X-inu:
„Þessi maður telur það hræsni að ég ætli ekki að lýsa Eurovision í ár af því ég hafi lýst Eurovision í Aserbaísjan. Um þetta skrifar hann heila grein, vísar m.a.s. til orða minna í útsendingunni. Bara einn galli: Ég lýsti ekki Eurovision í Aserbaísjan. Hef aldrei komið þangað.“
Hinn aðsendi pistill fjallaði um þá hræsni í Gísla Marteini að neita að lýsa Eurovision í Malmö í maí á þessu ári, vegna þess að Ísraelar fá að keppa, þrátt fyrir þjóðarmorð þeirra á Palestínumönnum, en að hann hafi aftur á móti lýst keppninni í Aserbaísjan árið 2012, Aserar frömdu þjóðarhreinsanir á kristnum Armenum árið 1918. En það var ekki Gísli Marteinn sem lýsti Eurovision það árið, heldur Hrafnhildur Halldórsdóttir. Reyndar heldur Einar því fram í greininni að keppnin hafi verið haldin árið 2016 í Aserbaísjan en hið rétta er auðvitað að hún var haldin árið 2012 þar í landi.
Einar komst í fréttirnar á dögunum þegar hann kærði þær Semu Erlu Sedoglu og Maríu Lilju Þrastardóttur fyrir meintar mútur í viðleitni þeirra til að bjarga lífi fjölda fjölskyldna af Gaza-ströndinni. Málinu var vísað frá.