Stóll sem kostaði 16.950 krónur í Rúmfatalagernum þann 3. nóvember, voru komnir upp í 19.950 krónur í dag, þann 11. nóvember. Í dag er svokallaður „singles day“ eða „dagur einhleypra“, sem hefur skapað sér sess sem einn stærsti afsláttardagur ársins í verslunum. Þar af leiðandi er stóllinn auglýstur á 20 prósent afslætti og er afsláttarverðið 15.960 krónur.
Þetta þýðir að afsláttarverðið í dag er einungis 990 krónum lægra en fullt verð sem stólinn var seldur á fyrir einungis átta dögum síðan, eða 5,84 prósentum.
Ef miðað er við upprunalegt verð frá 3. nóvember, 16.950 krónur, ætti stóllinn að kosta 13.560 krónur á auglýstum 20 prósenta afslætti.
Kona að nafni Gyða keypti umrædda stóla þann 3. nóvember síðastliðinn. Hún keypti þá á afmælistilboði verslunarinnar, en vissi vel hvert fullt verð stólanna var. Auk þess sést fullt verð skýrt á kvittun hennar, sem Gyða lét Mannlífi í té.
Í samtali við Mannlíf segir Gyða að henni hafi verið brugðið að sjá verðinu breytt, einmitt í kringum stóran tilboðs- og afsláttadag. Hún segir að um sé að ræða falskan afsláttardag.
Þegar hún hafði samband við Rúmfatalagerinn og gerði athugasemd við verðbreytinguna var svar verslunarinnar eftirfarandi:
„Sæl Gyða og takk fyrir að senda inn þessa fyrirspurn. Ástæðan fyrir þessari verðhækkun á NEW YORK stólnum er einfaldlega út af verðhækkun á innkaupa- og flutningsverði sem hefur orðið í kjölfarið á COVID-19. Við myndum aldrei hækka verð á vöru bara út af komandi afsláttardögum.“
Þá stendur sú spurning eftir hvort verð á stólnum hafi sannarlega hækkað um 3.000 krónur í sendingu sem kom á þeim átta dögum sem liðu frá kaupum Gyðu til dagsins í dag.
Þetta væri sannarlega ekki í fyrsta sinn sem innlend verslun gerðist sek um að hækka verð rétt fyrir útsölu eða tilboðsdaga. Neytendur eru því hvattir til að vera ávallt vakandi fyrir slíku.